Loftslagsbreytingar byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum á Íslandi

Loftslagsvá er viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þarf andvaraleysi gagnvart …
Loftslagsvá er viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þarf andvaraleysi gagnvart áhættunni, að því er segir í skýrslunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórða samantektarskýrsla vísindanefndar, sem fjallar um umfang og afleiðingar hnattrænna loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á Íslandi, staðfestir, svo ekki verður um villst, að loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru.

Þörf á umbyltingu í lífsháttum

„Til að tryggja að þær áskoranir verði ekki meiri en við er ráðið þarf umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna. Þar gegna stjórnvöld, atvinnulíf og stefnumótendur lykilhlutverki. Draga þarf úr losun eins hratt og unnt er og aðlaga samfélagið þannig að það ráði við álagið. Loftslagsvá er viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þarf andvaraleysi gagnvart áhættunni,“ að því er fram kemur í skýrslunni, sem er kynnt í dag. 

Loftslagsbreytingar hafa haft umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, s.s. afkomu …
Loftslagsbreytingar hafa haft umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, s.s. afkomu jökla, vatnafar, lífríki á landi og aðstæður í sjó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurfar og náttúruaðstæður verði án fordæma í lok aldarinnar

Tekið er fram, að loftslagsbreytingar hafi haft umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, s.s. afkomu jökla, vatnafar, lífríki á landi og aðstæður í sjó. Veðurfar og náttúruaðstæður á landinu og í hafinu umhverfis það verði í lok aldarinnar án fordæma frá upphafi byggðar á Íslandi. Súrnun sjávar og hlýnun muni breyta umhverfisaðstæðum og útbreiðslusvæðum tegunda í hafi.

Súrnun sjávar og hlýnun munu breyta umhverfisaðstæðum og útbreiðslusvæðum tegunda …
Súrnun sjávar og hlýnun munu breyta umhverfisaðstæðum og útbreiðslusvæðum tegunda í hafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Loftslagsvandinn efnahagsmál

„Umtalsverð áhrif loftslagsbreytinga á atvinnuvegi, uppbyggða innviði og efnahag skapa verulegar áskoranir jafnvel í geirum þar sem viðbrögð við hlýnun geta haft jákvæð áhrif í för með sér. Sjávarstöðubreytingar og aukin náttúruvá geta aukið samfélagslegt tjón og áhrif loftslagsbreytinga erlendis skapað umtalsverða kerfisáhættu hérlendis, t.d. með áhrifum á aðfangakeðjur, fæðuöryggi og lýðheilsu. Loftslagsbreytingar eru talin ein stærsta heilsufarsógn sem mannkynið stendur frammi fyrir,“ segir í skýrslunni. 

Þá kemur fram, að loftslagsvandinn sé efnahagsmál sem muni hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fjármálakerfisins. Aðlögun að og viðbrögð við loftslagsbreytingum hafi í för með sér áskoranir sem krefjist umbyltingar í neyslu, iðnaði og tækni. Áhrif loftslagsbreytinga nái meðal annars til félagslegra innviða, menningar, sjálfsmyndar þjóðar og veki upp siðferðilegar spurningar gagnvart öðrum þjóðum, komandi kynslóðum og vistkerfum

Í skýrslunni segir að loftslagsvandinn sé efnahagsmál sem muni hafa …
Í skýrslunni segir að loftslagsvandinn sé efnahagsmál sem muni hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fjármálakerfisins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka