„Þetta eru lífsnauðsynlegir innviðir“

Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni, fór ítarlega yfir stöðu mála …
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni, fór ítarlega yfir stöðu mála á Reykjanesskaga á íbúafundinum í Grindavík sem haldinn var í bænum fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svartasta sviðsmyndin er sú að það verði eldgos og það skemmi þessa innviði sem eru þarna til staðar. Þetta eru lífsnauðsynlegir innviðir, við erum að tala um vatn og við erum að tala um hita fyrir húsin og rafmagn og svo erum við auðvitað að tala um Grindavíkurbæ.“

Þetta segir Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is eftir íbúafundinn sem haldinn var í Grindavík fyrr í dag.

„Miðað við svona það sem við höfum séð í okkar útreikningum þá ætti að vera tími til að rýma og til að setja upp leiðigarða til að beina hrauninu eitthvað annað. Þannig að við verðum bara að vona það besta. Það er óvissa með hvort það verði eldgos og þá hvar það kemur upp,“ segir hún.

Svæðið gríðarlega vel vaktað

Kristín hélt erindi á fundinum en þar fór hún meðal annars yfir þá sviðsmynd sem nú blasir við á Reykjanesskaga. Þar kom meðal annars fram að svæðið væri sérstaklega vel vaktað og fylgst væri náið með öllum breytingum sem verða.

Innt eftir því hvað sé einna helst frábrugðið við þessar jarðhræringar núna, miðað við aðdraganda síðustu gosa, segir Kristín það vera að nú séu gríðarlegir innviðir í næsta nágrenni en Veðurstofan hafi það hlutverk að miðla upplýsingum til almannavarna sem síðan meti framhaldið.

„Staðan er sú að við erum að horfa á kvikusöfnun á nokkra kílómetra dýpi og við erum ekki enn þá farin að sjá kvikuna brjótast út úr þessari syllu sem er þarna að myndast þannig að það er bara að bíða og sjá. Við þurfum auðvitað að vakta þetta mjög nákvæmlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert