Kæra takmörkun á aðgangi fjölmiðla

Aðgengi fjölmiðla hefur verið takmarkað verulega.
Aðgengi fjölmiðla hefur verið takmarkað verulega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamannafélag Íslands hefur kært ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um takmörkun á aðgangi fjölmiðla að Grindavík og nágrenni, svokölluðu hættusvæði, til dómsmálaráðuneytisins.

Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi eða fyrirmælunum breytt á þann hátt að aðgangur fjölmiðla að hættusvæðinu verði rýmkaður.

Eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir föstudaginn 10. nóvember hefur aðgangur fjölmiðla að umræddu svæði sætt takmörkunum. Er nú einungis einum fjölmiðli heimilaður aðgangur að svæðinu hverju sinni til kvik- og ljósmyndunar gegn því að myndefni skuli deilt með öðrum miðlum.

Engin rökstudd fyrirmæli

Í kærunni segir m.a. að engin ákvörðun um aðgang fjölmiðla að hættusvæðinu hafi verið tilkynnt opinberlega og engin rökstudd fyrirmæli hafi verið gefin blaðamönnum sem óskað hafa eftir aðgangi að svæðinu undanfarna daga.

„Þegar til greina kemur að takmarka möguleika fjölmiðla til að fjalla um náttúruhamfarir og viðbrögð stjórnvalda við þeim verður auk annars að hafa í huga mikilvægi þess hlutverks sem fjölmiðlar gegna við slíkar aðstæður við miðlun upplýsinga til almennings bæði um náttúruhamfarir sem slíkar og um viðbrögð stjórnvalda í tilefni af slíkum hamförum,“ segir enn fremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert