Bjarni segir þátt Kveiks „eiginlega hneyksli“

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, gagnrýnir þátt Kveiks sem sýndur var í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. Þátturinn fjallaði um íslensku krónuna og fyrirtæki sem hafa heimild til að gera upp í erlendri mynt.

Segir Bjarni þáttinn hafa skort jafnvægi, fagmennsku og yfirvegun í efnahagslegu samhengi.

í Facebook-færslu í gærkvöldi segir Bjarni þáttinn samfelldan áróður gegn íslensku krónunni sem hafi verið grunnurinn að miklum hagvexti undanfarin áratug ásamt verulegum kaupmáttarvexti og háu atvinnustigi. 

„Mér fannst þessi þáttur eiginlega hneyksli. Svo margt var slitið úr eðlilegu samhengi og röngu ljósi varpað á heildarmyndina.“

Fyrirtæki fá heimild til að losna undan óstöðugleika krónunnar

Í fréttaskýringu Kveiks segir að íslenska krónan hafi veikst mikið að undanförnu gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

„Á meðan meira en 230 fyrirtæki og félög hafa fengið heimild til að losna undan óstöðugleika krónunnar sitja heimilin uppi með hana. Þessi fyrirtæki geta jafnvel fengið lán í evrópskum bönkum þar sem vextir eru helmingi lægri en á Íslandi. En heimilin geta ekki fengið svo hagstæð lán,“ segir í frétt Kveiks og er tekið fram að langflest útflutningsfyrirtæki hafi heimild til að gera upp í erlendum miðli.

Hafa menn ekkert lært, öllu gleymt?

Bjarni gefur þó lítið fyrir þá staðhæfingu og segir Kveik gefa í skyn að það séu forréttindi fyrir þá sem hafi meginþorra tekna sinna í erlendri mynt að gera upp í sömu mynt.

Sagði hann þáttinn með því gefa í skyn að eftirsóknarvert væri að heimilin fengju sömuleiðis að gera upp í erlendri mynt. 

„Þar vantaði tilfinnanlega umræðu um gengisáhættu og upprifjun á því hvernig það endaði síðast þegar það var gert. Hafa menn ekkert lært, öllu gleymt?“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert