Frumvarp um skömmtun á raforku tekur breytingum

„Það er fáránlegt að hér sé orkuskortur. Þetta er heimatilbúinn …
„Það er fáránlegt að hér sé orkuskortur. Þetta er heimatilbúinn vandi, en þó á því séu ýmsar skýringar, þá afsaka þær ekki neitt og það á enginn að fara í grafgötur um stefnu okkar sjálfstæðismanna í þeim efnum,“ segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður í Norðvesturkjördæmi. mbl.is/Sigurður Bogi

Heita má öruggt að frumvarp um heimild til orkuskömmtunar muni taka verulegum breytingum í meðförum þingsins. Þar á meðal um hvar ákvörðun um skömmtun muni liggja og eins er talið víst að gildistími laganna verði eitt ár, en ekki tvö.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd, segir að aðeins af umsögnum um frumvarpið blasi við að á því þurfi að gera ýmsar breytingar.

Nauðsynlegt að gera varúðarráðstafanir

„Þetta er ekki frumvarp, sem neinn langar til þess að leggja fram, en staðan er sú að það er nauðsynlegt að gera varúðarráðstafanir,“ segir hann. Orkuskortur hafi verið tilfinnanlegur og vatnsbúskapur í lónum með þeim hætti að þess þurfi.

Innan úr nefndinni hefur einnig heyrst að rétt sé að ábyrgð og ákvörðun um orkuskömmtun ef til komi þurfi að liggja hjá orkumálaráðherra fremur en orkumálastjóra, þó ráðleggingar þar um komi frá Orkustofnun. Eru þó ekki allir ánægðir með ráðherrann eða ráðslag ríkisstjórnarinnar í orkumálum, sem hafi stuðlað að því hvernig komið er.

Raforkuskortur og fyrirhugaðar lagaheimildir til orkuskömmtunar mælast mjög misvel fyrir á Alþingi og það á ekki síður við innan stjórnarliðsins, jafnvel innan flokka, en milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Meira þarf til en skömmtun

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir að meira þurfi til en skömmtun. „Það mætti setja sérlög um 1-3 virkjanakosti strax, þó ekki væri nema til að senda út skilaboð, en síðan mætti leyfa mönnum að selja inn á kerfið aftur sem bráðabirgðaráðstöfun,“ segir hann. „Menn hafa fleiri kosti en skömmtun og skömmtunarstjóra.“

„Það er fáránlegt að hér sé orkuskortur. Þetta er heimatilbúinn vandi, en þó á því séu ýmsar skýringar, þá afsaka þær ekki neitt og það á enginn að fara í grafgötur um stefnu okkar sjálfstæðismanna í þeim efnum,“ segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður í Norðvesturkjördæmi.

Hann segir einkennilegt að þá komi fram frumvarp um neyðarráðstafanir til þess að skammta raforku, en engar aðrar aðgerðir kynntar um hvernig tekið skuli á rót vandans.

„Það mætti kalla það neyðaraðgerðir um að auka raforkuframleiðslu í landinu,“ segir hann og minnir á að Alþingi hafi valdið til þess.

„Ég held að það sé aukinn meirihluti á Alþingi fyrir því að við bregðumst ekki aðeins við því hvernig megi lifa með raforkuskorti, heldur hvernig við eigum að eyða þessu vandræðaástandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert