„Við erum að taka á þessum málum“

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að tekið sé á öllum þeim málum sem koma inn á borð lögreglunnar um ósæmilega háttsemi starfsmanna.

Hún ítrekar í stuttu samtali við mbl.is að hún geti ekki tjáð sig um einstaka mál starfsmanna, en að hún leggi áherslu á að brugðist hafi verið við hverju máli fyrir sig og að ósæmileg háttsemi sé ekki umborin undir neinum kringumstæðum. Öllum málum hafi verið sinnt í samræmi við reglugerðir og lög sem við eiga. 

Nokkur mál til skoðunar

Nokkur háttsemisbrot innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa komið til kasta yfirstjórnar lögreglunnar á árinu, en þar er um að ræða mál á borð við einelti, kyn­ferðis­lega áreitni, kyn­bundna áreitni og of­beldi.

Greint var frá einu slíku í Kastljósi í gær, en þar kom fram að yfirmaður hjá embættinu væri kominn aftur til starfa eftir að hafa verið í leyfi. Hafði lögreglukona þurft að þola áreitni og ofbeldisfulla hegðun af hendi mannsins og var hann sagður beita ógnarstjórn og misbeita valdi sínu innan vinnustaðarins.

Sendi lögreglan fyrr í dag frá sér tilkynningu þar sem fram kom að samtals hefði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fengið fimm mál sem vörðuðu ósæmilega háttsemi starfsfólks inn á borð til sín á árinu.

Þetta er þó ekki eina dæmið um ósæmilega háttsemi starfsmann. Þannig var fyrr á árinu yfirlögregluþjónn sendur í leyfi vegna ásakana um kynferðislega áreitni á viðburði starfsfólks embættisins. Samkvæmt Rúv hafði yfirlögregluþjónninn meðal annars starfað á kynferðisbrotadeild lögreglunnar.

„Það ætti að svara þessari spurningu“

Undanfarin ár hefur embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sett nokkra áherslu á málaflokka kynbundins ofbeldis og kynferðisofbeldis.

Þannig tók Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og núverandi ríkislögreglustjóri, upp svokallað Suðurnesjamódel í baráttu við heimilisofbeldi. Embættið hefur einnig opnað þjónustugátt fyrir þolendur kynferðisbrota og fengið auka fjárveitingu til að vinna á uppsöfnuðum málafjölda.

Þessir málaflokkar eiga það sammerkt að meirihluti þolenda er kvenkyns. Það vekur því upp spurningar um traust íbúa til lögreglunnar að fara með slík mál þegar ítrekað hafa komið upp mál um ósæmilega háttsemi lögregluþjóna.

Spurð hvort traust til lögreglunnar hafi orðið fyrir skaða með þeim málum sem upp hafa komið ítrekar Halla Bergþóra að tekið sé á hverju máli, þó hún geti ekki tjáð sig um þau nánar. „Við erum að segja að við erum að taka á þessum málum, það ætti að svara þessari spurningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert