Yfir helmingsmunur á leiguverði eftir leigusala

Leiguverð hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum er mun lægra en hjá hagnaðardrifnu …
Leiguverð hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum er mun lægra en hjá hagnaðardrifnu félögunum. Er þar um helmingsmunur. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikill munur er á leiguverði eftir því hver er leigusali. Er fermetraverð hjá einstaklingum og hagnaðardrifnum leigufélögum yfir 3.000 krónur á meðan fermetraverð hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum er undir 2.000 krónur. Þetta sést í tölum nýrri leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem kynnt var í dag.

Leiguskráin er til komin vegna nýrra laga frá því í lok árs 2022, en þá var meðal annars innleidd skráningarskylda hjá stórum hópi leigusala. Í kynningu HMS í morgun kom meðal annars fram að lengi hafi verið búið við döpur gögn um leigumarkaðinn sem aðallega komu úr þinglýsingarskrá, húsnæðisbótakerfinu og úr leigumarkaðskönnun. Talsvert væri um göt í gögnunum og þau þættu alls ekki fullnægjandi fyrir stefnumótandi ákvarðanir sem ættu að byggja á gögnum.

Því var ákveðið að fara í smíði á leiguskrá sem væri gagnagrunnur sem hægt væri að sækja gögn í á einfaldan hátt og raða upp og skoða eftir hinum ýmsu breytum.

Miðgildi fermetraverðs eftir tegund leigusala í nýrri leiguskrá HMS. Þar …
Miðgildi fermetraverðs eftir tegund leigusala í nýrri leiguskrá HMS. Þar sést að fermetraverðið er hæst hjá almennum leigufélögum, en einstaklingar sem eru leigusalar koma þar skammt á eftir. Inn í þessum tölum eru stúdíóíbúðir og upp í 5 herbergja íbúðir. Graf/HMS

60% leigusamninga þegar í leiguskránni

Í dag eru um 20 þúsund leigusamningar þegar skráðir í leiguskrána, en rannsókn Hagstofu frá árinu 2022 gerði ráð fyrir að um 34 þúsund heimili væru á leigumarkaði. Því áætla aðstandendur grunnsins að um 60% samninga séu þegar komnir í grunninn, en markmiðið er að ná upp í um 80% af markaðinum.

Meðal þeirra sem skila gögnum inn í grunninn eru stór leigufélög, stórir leigusalar, sveitarfélög og óhagnaðardrifin leigufélög. Geta leigufélög tengt tölvukerfi sín beint við grunninn og sent inn jafn óðum og nýir samningar eru gerðir.

Tímabundnir eða ótímabundnir samningar

Í kynningunni í morgun voru sýnd nokkur dæmi um hvaða gögn væri hægt að sækja í grunninn og voru það meðal annars upplýsingar um hversu hátt hlutfall leigusamninga væru tímabundnir eða ótímabundnir. Kom þar í ljós að þar sem einstaklingar eru leigusalar eru 78% samninga tímabundnir. Hjá sveitarfélögum og hagnaðardrifnum leigufélögum er hlutfallið um 60%, en aðeins 19% hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum.

Þá var hægt að skoða leiguverð eftir aldri íbúða sem voru leigðar út, eftir stærð þeirra og staðsetningu. Einnig sást út frá gögnunum að staðsetning virðist hafa nokkuð meiri áhrif á verð lítilla íbúða en stórra íbúða.

Leigan hæst hjá leigufélögum og einstaklingum

Almennt er leigan hæst hjá hagnaðardrifnum leigufélögum. Á það við um um allar stærðir íbúða, frá 2ja herbergja upp í 5 herbergja. Leigan er næst hæst hjá leigusölum sem eru einstaklingar, en sveitarfélög og óhagnaðardrifin leigufélög eru með lang lægstu leiguna. Eru óhagnaðardrifin leigufélög með lægri leigu á 2ja og 3ja herbergja íbúðum, en þegar eignirnar stækka verður leigan lægri hjá sveitarfélögum.

Miðgildi fermetraverðs eftir mismunandi stærð fasteigna samkvæmt tölum úr nýrri …
Miðgildi fermetraverðs eftir mismunandi stærð fasteigna samkvæmt tölum úr nýrri leiguskrá HMS. Graf/HMS

Þegar miðgildi leiguverðs er skoðað sést að það er hæst hjá hagnaðardrifnu leigufélögunum, en þar er það um 3.200 krónur á fermetra. Þar sem einstaklingar eru leigusalar er fermetraverðið einnig aðeins yfir 3.000 krónur á fermetra. Hins vegar er það rúmlega 2.500 krónur á fermetra hjá sveitarfélögum og tæplega 2.000 krónur hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum.

Þannig er leigan að meðaltali um 62% hærri hjá hagnaðardrifnum leigufélögum en hjá þeim óhagnaðardrifnu.

Ný vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu

Tekið skal fram að leiguskráin inniheldur enn sem komið er frekar fáa samninga frá óhagnaðardrifnum leigufélögum vegna skorts á þeim íbúðum á markaðnum og því voru færri slíkar íbúðir leigðar út á árinu. Það er því mögulegt að meðalverðið breytist eftir því sem samningunum fjölgar.

Samhliða þessu kynnti HMS nýja vísitölu sína um húsaleigu á höfuðborgarsvæðinu, en þar verður hægt að fylgjast með verðþróun venjulegra íbúða á almenna leigumarkaðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert