Regluverkið nær ekki utan um náttúruhamfarirnar

Hulda segir að núverandi regluverk um NTÍ nái ekki vel …
Hulda segir að núverandi regluverk um NTÍ nái ekki vel utan um atburðina í Grindavík. mbl.is/Arnþór

Ef beint tjón verður á eignum í Grindavík vegna sigdalsins þá er það tryggt af Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ). Hulda Ragnheiður Árnadóttir, for­stjóri NTÍ, segir að líta verði til sérstakra aðgerða eða nýrra laga vegna tjónsins í Grindavík.

„NTÍ vátryggir það tjón sem sannarlega hefur orðið á húseignum vegna náttúruhamfara. Innbú og lausafé sem er brunatryggt hjá almennu félögunum er líka tryggt hjá NTÍ,“ segir Hulda í samtali við mbl.is en ítrekar að þetta eigi bara við um beint tjón af sjálfum hamförunum.

„Svo eru önnur mannvirki eins og veitur, hafnir og brýr sem eru í eigu sveitarfélagsins, það er líka vátryggt hjá okkur fyrir náttúruhamförum.“

Gerir ráð fyrir sér lögum 

Hulda segir að tjónið í Grindavík sé svo umfangsmikið að hún telur að væntanlega verði gerð sérstök lög vegna þeirra.

„Þetta er orðið svo gríðarlegt umfang þessara hamfara að ég tel að það verði að líta til stærri aðgerða en nákvæmlega til þess sem Náttúrumhamfaratrygging Íslands nær til,“ segir hún og útskýrir að þetta gætu verið sérlög eða sérstakar aðgerðir sem ná yfir hluti sem NTÍ nær ekki utan um í núverandi lagaumhverfi.

„Regluverkið, sem hefur verið smíðað utan um tjón sem hafa orðið hingað til, passar ekkert sérstaklega vel fyrir þennan atburð sem þarna er að eiga sér stað.“

Hulda útskýrir til dæmis að reglur um NTÍ nái ekki utan um það að fólk geti ekki nýtt eignir sínar þrátt fyrir það að þær séu ekki skemmdar. Fólk eigi hús í Grindavík sem séu í fínu lagi en það megi ekki nota þau. Lög um NTÍ ná ekki utan um slík mál.

Lagnaskemmdir vegna frosts ekki beint tjón

Upp hefur komið álitamál um frostskemmdir í lögnum, en það er ekki að mati NTÍ beint tjón vegna náttúruhamfara.

„Við vorum búin að svara því áður að miðað við ef Svartsengi færi út þá litum við á það sem óbeint tjón ef það yrði rafmagnslaust í húsum einhvers staðar í langri fjarlægð frá því,“ segir Hulda.

Varðandi tjónið sem fylgir sigdalnum segir hún það ekki vafamál að beint tjón af völdum hans sé tryggt.

„Sigdalurinn er hluti af jarðhræringunum. Við erum tryggð fyrir eldgosum og jarðskjálftum og það eru eldgos og jarðskjálftar sem eru að skapa þær aðstæður sem um ræðir.“

Hún segir að eftir atburði 10. nóvember hafi beint tjón af völdum sigdalsins ekki verið mikið en að það sé með öllu óljóst hvert það tjón sé núna í kjölfar eldgossins á sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert