Ekki eðlilegt að breyta Austurvelli í tjaldbúðir

Einar Þorsteinsson borgarstjóri vil að fánum sé stillt í hóf …
Einar Þorsteinsson borgarstjóri vil að fánum sé stillt í hóf við Austurvöll. Samsett mynd

„Mér finnst ekki eðlilegt að breyta Austurvelli í slíkan stað þar sem eru tjaldbúðir um lengri tíma,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri í samtali við mbl.is um samkomutjald Palestínumanna á Austurvelli sem „fær að standa í nokkra daga í viðbót“.

Palestínumenn hafa í mótmælaskyni komið upp tjaldi á Austurvelli og hefur það staðið frá 27. desember en þeir hafa afnotaleyfi til 25. janúar. Mótmælendur krefja stjórnvöld um þrennt: Að stjórn­völd standi við fjöl­skyldu­sam­ein­ing­ar, að palestínskt flótta­fólk sem hingað er komið fái hæli og að ráðherr­ar verði við ósk þeirra um fund.

„Mér finnst enginn bragur á því að það sé tjaldað og gist jafnvel vikum eða mánuðum saman á Austurvelli,“ segir Einar. „Það er ekki góð þróun ef hópar taka sig saman og fá aðstöðu þarna til þess að tjalda og gista yfir lengri tíma.“

Nýtt afnotaleyfi mótmælendanna heimilar ekki gistingu á svæðinu.

Tjaldbúðirnar hafa sætt einhverja gagnrýnni að undanförnu, einkum úr hægriátt.
Tjaldbúðirnar hafa sætt einhverja gagnrýnni að undanförnu, einkum úr hægriátt. mbl.is/Óttar

Borgarstarfsmenn rætt við mótmælendur

Bjarni Benediktsson, utanríkisráðaherra og einn þeirra ráðherra sem Palestínumennirnir krefja um fund, fór stórum orðum um tjaldbúðirnar í gær og gagnrýnir borgina fyrir að leyfa tjaldbúðunum að standa.

Einar bendir á í samtali við mbl.is að lögreglan hafi ekki gert athugasemd við mótmælin en að afnotaleyfið sé nú takmarkaðra en það hafði verið áður.

„Það [stóra samkomutjaldið] fær að standa í nokkra daga í viðbót. Borgarstarfsmenn fóru í vikunni og ræddu við mótmælendur í vikunni. Það voru góð samtöl. Þau hafa hingað til farið friðsamlega fram og lögreglan hefur ekki gert athugasemd við þessi mótmæli. Alþingi hefur ekki beitt sér gegn þeim, skrifstofa þess eða eða forseti,“ segir borgarstjórinn.

„Þau [mótmælendur] skilja það að þetta samræmist ekki lögreglusamþykkt sem kveður á um að það megi ekki gista þarna,“ bætir hann við.

Hann telur þó að tjaldbúðirnar geti takmarkað rétt annarra til að nýta Austurvöll til mótmæla og bætir við borginni hafi þegar borist frekari beiðnir um svipuð afnot af Austurvelli. 

Áður var fjöldi tjalda við Austurvöll en nú hafa þau …
Áður var fjöldi tjalda við Austurvöll en nú hafa þau öll verið fjarlægð, að undanskildu samkomutjaldi. Sérstök heimild fyrir tjaldi var aftur á móti ekki veitt fyrr en á fimmtudag. mbl.is/Árni Sæberg

Hófsemi verði gætt fyrir framan Alþingi

Eitt af því sem utanríkisráðherra gagnrýndi var fjöldi palestínskra fána við Austurvöll. Einar segir einnig að fánum eigi að stilla í hóf.

„Mér finnst eðlilegt að á þessum stað, fyrir framan Alþingi, sé einhverrar hófsemi gætt þegar kemur að því að flagga öðrum fánum [en hinum íslenska],“ segir Einar. „En eðlilega flagga þeir palestínska fánanum í kring um sínar mótmælabúðir“

Hann tekur þó fram að hann hafi mikla samúð með fórnarlömbum átakanna í Ísrael og Palestínu. „Og ég held að almenningur skilji að neyð þessa hóps sem er hér, sem bíður fregna frá ættingjum og ástvinum, er gríðarlega mikil,“ bætir hann við.

Borgin vill að fánum sé still „í hóf“.
Borgin vill að fánum sé still „í hóf“. mbl.is/Óttar

Rafmagni stolið úr viðburðarskáp

Greint var frá því á mbl.is fyrr í mánuðinum að mótmælendur hefðu í leyfisleysi notað rafmagn úr viðburðarskáp, þrátt fyrir að umsóknin um afnot af rafmagninu hafi verið óafgreidd. Mótmælendur sögðu þá að starfsmaður borgarinnar hefði tengt rafmagnið fyrir sig, og þeir þar af leiðandi gert ráð fyrir að þeim væri heimilt að nota rafmagnið.

Reykjavíkurborg virðist þó ekki kannast við að starfsmaður á þeirra vegum hafi hjálpað mótmælendum við að tengja rafmagn við tjaldið.

„Það er enginn sem kannast við að hafa gert þetta,“ segir Björgvin Sigurðarson við mbl.is, deild­ar­stjóri af­nota og eft­ir­lits hjá Reykja­vík­ur­borg. Hann kveðst hafa grennslast fyrir um starfsmanninn en enginn hafi viljað gangast við því að hafa tengt viðburðarkassann. 

„Aftur á móti skilst mér að rafvirkjar hafi aðgang að þessum kössum. Þetta eru svona universal lyklar [að kössunum],“ bætir Björgvin við. Aðspurður segist hann ekki vita hvort þessi meinti rafmagnsstuldur hafi verið eða muni vera kærður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert