Skelfilegur veruleiki blasir nú við

Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Eggert

„Auðvitað hefur lögreglumönnum oft verið hótað á einhvern hátt. Það hefur þó ekki verið með sama hætti og nú þegar fólk virðist framkvæma hótanirnar,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í gær en þar kom meðal annars fram að lögreglukona hefði þurft að flýja heimili sitt vegna líflátshótana. Heimildir blaðsins herma að sá sem hótaði henni, erlendur ríkisborgari, tengist skotárásinni í Úlfarsárdal í byrjun nóvember sl.

Áður hefur verið fjallað um að kveikt hafi verið í bíl lögreglumanns á síðasta ári og nýverið voru unnin skemmdarverk á bíl annars lögreglumanns. Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar, lýsti í gær yfir áhyggjum af aukinni hörku í samfélaginu.

Hafa áhyggjur af fjölskyldum

Fjölnir segir að þessi þróun horfi skelfilega við lögreglumönnum. Hann segir að hafa verði í huga að það sé manneskja á bak við búninginn, fjölskyldufólk sem sé bara að vinna vinnuna sína. Lögreglumenn beri sig kannski sjálfir vel og telji sig geta ráðið við aðstæður sem þessar en þeir hafi hins vegar áhyggjur af fjölskyldum sínum og nánasta umhverfi.

„Þetta er engin viðkvæmni í okkur en þegar eitthvað sem við getum jafnvel kallað skipulögð samtök eru farin að hóta okkur horfir það öðruvísi við. Við vitum að eigur lögreglumanna hafa verið skemmdar og það hefur verið fylgst með lögreglumönnum. Auðvitað er það skelfilegur veruleiki að geta ekki verið með skráð póstfang.“

Vopnaburður og aukin harka

Hann segir ofbeldi gegn lögreglumönnum hafa aukist víðar en á Íslandi. Bæði sé það af hendi glæpasamtaka en líka í tengslum við ástandið í heiminum, til að mynda þegar hópar mótmæla. Í slíkum aðstæðum lendi lögreglumenn gjarnan á milli, starfs síns vegna.

Dæmi um hótanir geti falist í yfirlýsingum um að brotamenn viti hvar viðkomandi lögreglumaður á heima og hvar börnin hans gangi í skóla. „Eru þeir að meina þetta í alvörunni? Við höfum ekki liðið slíkt í íslensku samfélagi hingað til og við þurfum að stoppa þetta strax í fæðingu nú.“

Nán­ar má lesa um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert