Dómstóllinn telur þjóðarmorð hugsanlegt

Þórdís Ingadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Alþjóðadómstóllinn kvað …
Þórdís Ingadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Alþjóðadómstóllinn kvað upp bráðabirgðaúrskurð sinn í gær. Samsett mynd

„Þetta er grafalvarleg niðurstaða,“ segir Þórdís Ingadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, um bráðabirgðaúrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag í máli Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot gegn lögum um þjóðarmorð.

Með úrskurði sínum telur dómstóllinn að það sé hugsanlegt að þjóðarmorð hafi átt sér stað eða geti átt sér stað, að sögn Þórdísar, sem hefur skrifað mikið um alþjóðadómstóla, meðal annars um lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag og störf Alþjóðlega sakamáladómstólsins.

„Hann hefur þá þýðingu að dómstóllinn úrskurðar ákveðnar aðgerðir sem Ísrael verður að grípa til.“

Niðurstaðan afdráttarlaus

Var það mat fimmtán dómara dómstólsins gegn tveimur að Ísrael væri skylt að grípa til aðgerða til að fyrirbyggja þjóðarmorð. Sextán dómarar gegn einum úrskurðuðu að Ísraelum væri einnig skylt að láta af aðgerðum sem flokkast gætu undir þjóðarmorð.

Þá skuli Ísrael tafarlaust grípa til árangursríkra aðgerða til að koma nauðsynlegri mannúðaraðstoð á Gasasvæðið.

Þórdís segir vert að líta til þess að Alþjóðadómstóllinn í Haag sé ein af æðstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Að fá svo afdráttarlausa afstöðu frá dómstólnum sé mikilvægt.

Hugsanlegt að þjóðarmorð hafi átt sér stað eða geti átt sér stað

„Þeir fara í gegnum það hvort það sé hugsanlegt að þjóðarmorð hafi átt sér stað eða geti átt sér stað og í löngu máli lýsa þessum hörmungaraðstæðum á Gasa. Þá fjalla þeir um þessa orðræðu sem hefur átt sér stað frá æðstu valdamönnum í Ísrael og þegar þeir eru búnir að meta þetta tvennt þá telja þeir að það sé hugsanlegt að þjóðarmorð hafi átt sér stað eða geti átt sér stað,“ útskýrir Þórdís.

„Í því tilviki vísar dómurinn til dæmis í mjög nýlega yfirlýsingu forsætisráðherra Ísraels um að stríðið geti tekið marga mánuði í viðbót.“

Hún segir niðurstöðu dómstólsins hafa mikið vægi, en bendir á að um bráðabirgðaúrskurð sé að ræða en ekki endanlegan dóm í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert