Safna fyrir útskriftarferð barna í Grindavík

Stefnt var að því að safna fyrir ferðinni með skólahappdrætti …
Stefnt var að því að safna fyrir ferðinni með skólahappdrætti og auglýsingum í skólablaðinu, en í ljósi nýlegra atburða hefur verið opnað fyrir frjáls framlög. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þau eru búin að missa af svo miklu. Ég hef aldrei á mínum ferli kynnst jafn óheppnum hópi með það að fara í ferðir,“ segir Páll Erlingsson grunnskólakennari. 

Opnað hefur verið fyrir frjáls framlög til að styrkja útskriftarferð barna í 10. bekk í Grindavík.

Páll, sem er ábyrgðarmaður söfnunarinnar, segir að til hafi staðið að safna fyrir ferðinni með hefðbundnum hætti, en að allt hafi farið á hvolf í ljósi nýlegra atburða. Fólk hafi sýnt áhuga á því að styrkja málstaðinn.

Röð óhappa

Hópurinn missti af Reykjaferð á sínum tíma sökum heimsfaraldursins en þau misstu einnig af ferð á Laugavatn vegna myglu í húsinu þar. Síðar ætluðu þau í Þórsmörk, en þá fengust engar rútur til að flytja hópinn.

„Þetta er bara búið að vera röð óhappa,“ segir hann. 

Fyrir útskriftarferðina var því ákveðið að fara með hópinn til útlanda og stefnt er að því að fara til Kaupmannahafnar í Danmörku þar sem þau munu gista í bústað rétt fyrir utan borgarmörkin.

Gjafmildi og samkennd

Páll bendir á að aldrei hafi verið stefnt að því að biðja um frjáls framlög einstaklinga. Til hafi staðið að safna fyrir ferðinni með sérstöku skólahappdrætti og með auglýsingum í skólablaðið.

„Þetta var fyrst og fremst hugsað þannig, en svo er fólk bara svo ótrúlega gjafmilt og gott og sýndi svo mikla samkennd með þessu að það vildi bara fá að leggja fé í ferðina, þó svo að það hafi aldrei verið stefnan og við vorum ekki að sækjast eftir því.“

Páll segir að skrið sé komið á söfnunina og að þegar sé búið að safna einhverjum hundrað þúsundum.

Hægt er að styrkja málefnið með því að leggja inn á eftirfarandi reikning: 

Reikningsnúmer: 0143-15-380852

Kennitala: 260965-5659

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert