Umtalsverðum verðmætum stolið

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umtalsverðum verðmætum var stolið úr heimahúsi í póstnúmeri 108 í Reykjavík að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Málið er til rannsóknar en ýmislegt rataði á borð lögreglunnar samkvæmt yfirliti úr dagbók lögreglu frá klukkan 5 í nótt fram til klukkan 17 í dag.

Talsvert hefur verið um umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu en snjóað hefur töluvert um helgina og mikil hálka á götum.

Tilkynnt var um nokkra sem óskað var að skyldu fjarlægðir úr bílastæðahúsi í miðbænum. Þeir voru farnir á brott þegar lögreglu bar að garði.

Stöðvaðir við akstur

Á svæði lögreglustöðvar 3, sem sinnir Breiðholti og Kópavogi, var ökumaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en fíkniefni fundust á manninum. Hann var fluttur á lögreglustöð í venjubundið ferli.

Þá voru fjórir aðrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur á sama svæði. Þeir voru ýmist sviptir ökuréttindum eða voru án gildra ökuréttinda. Allir eiga þeir von á sektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert