Aðrar leiðir í boði en að styðja UNRWA

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ræddi við mbl.is um UNRWA í kjölfar …
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ræddi við mbl.is um UNRWA í kjölfar ríkisstjórnarfundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson segir þörf á skýringum og viðbrögðum frá Palestínuflóttamannahjálpinni (UNRWA) við þungum ásökunum í garð stofnunarinnar. Hann segir engar upplýsingar vera fyrir hendi um það að íslenskir skattgreiðendur hafi óbeint fjármagnað hryðjuverkastarfsemi í Palestínu.

Aðspurður hvort að hann hafi tekið ákvörðunina um að frysta greiðslur til UNRWA of snemma í samanburði við önnur Norðurlönd segir hann:

„Ég átta mig ekki alveg á því hvað átt er við þar. Nú liggur fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sagt að greiðslur sem fyrirhugaðar voru síðar í febrúarmánuði muni taka mið af viðbrögðum stofnunarinnar og þeim skýringum sem fram koma. Ég tek eftir því að Finnar eru á svipuðum slóðum og Danir hafa gefið út yfirlýsingu sem mér sýnist munu fylgja fordæmi framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.

Bjarni bætir því að honum sýnist að viðbótarframlög frá Svíþjóð séu á bið þó að utanríkisráðuneyti þeirra, sem er með kjarnaframlög, hafi ekki tjáð sig.

Krefst frekari útskýringa gegn áframhaldandi framlögum

Fyrirhugað var að kjarnaframlag Íslands til UNRWA myndi koma á þessum ársfjórðungi, en Ísland gefur UNRWA 110 milljónir króna á ári í kjarnaframlag.

Bjarni segir að utanríkisráðuneytið hafi einungis gefið það út að áður en að meiri peningur yrði sendur til UNRWA þá þyrftu að koma fram skýringar.

„Og ef við fáum skýringar, ef við fáum eðlileg viðbrögð og við finnum fyrir því að það er samhljómur í því að gripið hafi verið til ráðstafanna í samræmi við tilefnið, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þessi stofnun njóti áfram stuðnings.“

Greinilegar brotalamir á starfsemi UNRWA

Er hægt að útiloka að skattfé almennings hafi óbeint verið notað til fjármagna hryðjuverkastarfsemi?

„Við höfum engar upplýsingar í höndunum í dag til að komast að slíkri niðurstöðu, að það hafi runnið til þess. En að mati stofnunarinnar sjálfrar hafa greinilega verið einhverjar brotalamir vegna þess að hún hefur nú bæði sagt upp starfsmönnum og ákvað 17. janúar síðastliðinn að láta fara fram rannsókn óháðra aðila vegna ásakana á undanförnum árum sem gengu út á það að stofnunin væri ekki að öllu leyti hlutlaus og fagleg,“ segir hann og bætir við:

„Þær ásakanir sem komu síðan í síðustu viku eru svo viðbótartilefni til þess að láta skoða þá starfsemi sem þarna fer fram.“

Aðrar leiðir til að styðja við mannúðaraðstoð

Bjarni segir að það séu engin áform uppi um að draga úr heildarstuðningi stjórnvalda til mannúðaraðstoðar á Gasa. Margar aðrar stofnanir séu þegar í samstarfi við stjórnvöld sem hægt er að styðja aukalega.

Nefnir hann þar Rauða krossinn, neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna, samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum og Alþjóðabankann, sem sinnir uppbyggingu innviða á Gasa.

„Þannig það eru margar aðrar leiðir og eins og ég segi, við erum einmitt núna að auka framlög okkar bæði til alþjóðaskrifstofu Rauða krossins og Alþjóðabankans.“

Línurnar skýrist á næstunni

Bjarni gerir ráð fyrir að línurnar muni skýrast á næstu dögum og vikum varðandi viðbrögð UNRWA sem og varðandi ásakanirnar sjálfar.

Ísra­els­menn sökuðu tólf starfs­menn UNRWA um aðild að hryðju­verka­árás Hamas þann 7. októ­ber í Ísrael. Í þeim hryðju­verk­um voru hátt í 1.200 manns voru drep­in, aðallega sak­laus­ir borg­ar­ar.

Þau ríki sem tilkynnt hafa um einhvers konar frestun framlaga eru, auk framkvæmdastjórnar ESB; Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Ítalía, Ástralía, Finnland, Kanada, Holland, Eistland, Lettland, Litháen, Japan, Austurríki og Rúmenía, auk Íslands, Danmerkur sem hyggst fylgja afstöðu ESB í málinu og Svíþjóðar sem mun að minnsta kosti fresta greiðslu framlaga annarra en kjarnaframlaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert