Gott ef Bjarni hefði haft samráð við þingnefnd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst hafa komið sínum skoðunum skýrt á …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst hafa komið sínum skoðunum skýrt á framfæri á nýloknum ríkisstjórnarfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það hefði verið gott ef Bjarni Benediktsson hefði haft samráð við utanríkismálanefnd áður en hann ákvað að frysta greiðslur til Palestínuflótta­manna­hjálp­ar­inn­ar (UNRWA).

Hún segir eðlilegt að UNWRA geri grein fyrir því hvernig þau hyggjast taka á þungum ásökunum í sinn garð.

„Þetta er auðvitað hans ákvörðun“

„Utanríkisráðherra var að fara yfir þessa ákvörðun sína áðan á ríkisstjórnarfundi, og þetta er auðvitað hans ákvörðun,“ segir Katrín í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.

Katrín á von á því að skýringar komi mjög fljótlega frá UNRWA varðandi þessar ásakanir, sem ísraelsk leyniþjónusta hefur deilt með fjölmiðlum.

Hefði verið gott að eiga samráð

Hefðir þú verið til í að sjá meiri samráð við þessa ákvarðanatöku?

„Eins og ég segi, hún var tekin bara og eins og komið hefur fram hjá okkar þingflokksformanni það hefði til dæmis verið gott að eiga samráð við utanríkismálanefnd áður en hún var tekin.

En svona er þetta og mín afstaða, sem ég gerði skýra grein fyrir á ríkisstjórnarfundi, er að þarna er skelfileg mannúðarkrísa og á það verðum við að einblína. Þó að sjálfsögðu sé eðlilegt að stofnunin geri grein fyrir því hvernig hún hyggst taka á þessum málum sem hafa verið að koma upp,“ segir Katrín.

Brýn þörf á mannúðaraðstoð

Segir Katrín að utanríkisráðuneytið sé búið að fara fram á skýringar frá UNWRA á þeim ásökunum sem komið hafa fram og segir hún að utanríkisráðuneytið sé í samráði við önnur Norðurlönd.

Eins og greint hefur verið frá þá frystu íslensk stjórnvöld greiðslur til UNRWA, eins og nokkur önnur vestræn ríki gerðu, í kjölfar þess að Ísra­els­menn sökuðu tólf starfs­menn sam­tak­anna um aðild að hryðjuverkaárás Hamas þann 7. októ­ber. Í þeim hryðjuverkum voru hátt í 1.200 manns voru drepin, aðallega saklausir borgarar.

„Ég lít nú svo á að afstaða okkar sé alveg óbreytt hvað það varðar að við viljum styðja áfram við mannúðaraðstoð á Gasa, enda þörfin brýn,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert