Ísraelsmenn ráðast inn í Jabalia: Palestínumenn flýja enn á ný

Palestínumenn flýja Jabalia-flóttamannabúðirnar vegna árása Ísraelsmanna.
Palestínumenn flýja Jabalia-flóttamannabúðirnar vegna árása Ísraelsmanna. AFP

Harðir bardagar geisa nú í Jabalia-borg í norðurhluta Gasasvæðisins. Ísraelsmenn hafa ráðist aftur inn á viss svæði borgarinnar þar sem þeir telja Hamas-liða safnast þar saman á ný. 

Samkvæmt fréttastofu BBC flýja íbúar nú borgina sem segja skriðdreka nálgast Jabalia-flóttamannabúðirnar ört, en sprengjuárásir hafa dunið á búðunum síðan á laugardag. Fleiri en 35.000 manns hafa látist á Gasasvæðinu síðan 7. október. 

Skriðdreki við skólastofur

„Skriðdrekinn var fyrir aftan skólastofurnar,“ sagði Umm Jumma, kona á flótta sem ræddi við fréttastofu Reuters, sem hafði ákveðið að flýja Rafah með fjölskyldu sína.

„Við vildum ekki flýja borgina fyrr en við sáum það með eigin augum.“

Hernaðararmur Hamas kveðst einnig berjast við ísraelska hermenn austur við búðirnar og fjölmiðlar á svæðinu hafa greint frá átökum milli þeirra og ísraelskra skriðdreka nálægt nokkrum skólum Sameinuðu þjóðanna, sem hýsa nú fólk á flótta. 

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hafa 360.000 manns flúið borgina Rafah í suðurhluta Gasasvæðisins, eftir að Ísraelsher hóf árásir þar. 

Reykur stígur til lofts frá sprengjum Ísraelshers í borginni Jabalia …
Reykur stígur til lofts frá sprengjum Ísraelshers í borginni Jabalia á Gasasvæðinu. AFP

Ráðleggja fólki að færa sig um set enn á ný

Ísraelski herinn hefur fyrirskipað rýmingu austurhluta borgarinnar, þar sem um milljón Palestínumanna hefur safnast saman í leit að skjóli frá árásum Ísraelsmanna. Hafði herinn áður ráðlagt Palestínumönnum að halda suður í átt að Rafah til að forðast árásir hersins og því var fjöldi Palestínumanna ráðalaus um hvert skuli halda næst í leit að öryggi. 

Hefur herinn ráðlagt þeim sem hafa flúið árásirnar í Rafah að halda í átt að strandsvæðinu al-Mawasi og til Khan Youins-borgarinnar en Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að ekki séu nægir innviðir og hjálpargögn til að styðja við slíkan fjölda fólks. 

Palestínskir fjölmiðlar hafa sagt minnst tvo hafa látist í árásum á flóttamannabúðirnar í dag og nokkra til viðbótar í árásum inni í borginni. Sjúkraflutningamenn segja lík tuttugu óbreyttra borgara þegar hafa fundist eftir árásir í Jabali og hafa verið flutt á Kamal Adwan-spítalann í Beit Lahia.

Loftárás á Zeitoun

Ísraelski herinn hefur ekki tjáð sig sérstaklega um árásirnar en sagði á sunnudaginn að hermenn þeirra hefðu hafið aðgerðir í Jabalia á laugardagskvöldið, vegna upplýsinga um að Hamas-liðar væru að reyna að koma þar upp „hryðjuverkamannvirkjum“ þar sem þeir gætu komið saman á ný. 

Kvaðst herinn einnig vinna að aðgerðum á Zeitoun-svæðinu, í austurhluta Gasasvæðisins til að „útrýma hryðjuverkamönnum og rífa niður innviði hryðjuverkamanna“. 

Samkvæmt palestínska fjölmiðlinum Safa varð Zeitoun fyrir loftárás Ísraelsmanna í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert