Segja lýsi auka hættu á hjarta- og æðasjúkdómum

Fjölmargir Íslendingar taka E-vítamíntöflur daglega og fylgja þar fordæmi margra …
Fjölmargir Íslendingar taka E-vítamíntöflur daglega og fylgja þar fordæmi margra annarra þjóða. Tilgangurinn er að draga úr tíðni ýmissa alvarlegra sjúkdóma, þ.á.m. krabbameina, kransæðasjúkdóma og heilablóðfalla. mbl.is/Júlíus

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að regluleg notkun á bætiefnum úr fiskiolíu, á borð við lýsi og omega–3 fitusýrur, geti aukið hættu fólks á að fá heilablóðfall og aukið hættuna á gáttatifi hjá fólki sem býr við góða hjarta- og æðaheilsu. 

Því hefur löngum verið haldið fram að lýsi og omega–3 fitusýrur séu mikilvægar fyrir hjarta- og æðastarfsemi líkamans og nota um 20% fullorðinna eldri en 60 ára í Bandaríkjunum lýsi á hverjum degi með það að markmiði að styðja hjartaheilsu sína.

CNN greinir frá, en rannsóknin var birt í tímaritinu BMJ Medicine

Afar sjaldan ráðlagt að taka lýsi 

„Ég sé fyrir mér fyrirsögn þessarar rannsóknar sem „Lýsi: Er kominn tími til að henda því eða ekki?“ sagði hjartalæknirinn Dr. Andrew Freeman, sem er forstöðumaður hjarta- og æðavarna og vellíðunar hjá National Jewis Healt í Denver. Hann tók ekki þátt í rannsókninni.

Freeman útskýrir að fólki sé afar sjaldan ráðlagt af starfsfólki verslana eða apóteka að kaupa lýsi. Ekki sé heldur ráðlagt að neyta lýsis í neinum leiðbeiningum frá faglegum læknafélögum, en samt sem áður sé það eitthvað sem flestir taka. 

Hjálpar einungis fólki með hjartasjúkdóma

Rúmlega 415.000 manns á aldrinum 40-69 ára tóku þátt í rannsókninni sem unnin var af breska fyrirtækinu Biobank. Um langtímarannsókn var að ræða þar sem heilsa fólks í Bretlandi var skoðuð. Að meðaltali var fylgst með þátttakendum rannsóknarinnar í tólf ár og sagðist þriðjungur þátttakenda reglulega fá sér lýsi. 

Sýndu niðurstöður rannsóknarinnar að fólk sem ekki var með nein hjartavandamál, en tók reglulega inn lýsi, var 13% líklegra til að fá gáttatif og í 5% aukinni hættu á að fá heilablóðfall. 

Freeman segir áhyggjur lækna af lýsi ekki nýjar af nálinni og er hann þá sérstaklega að vísa til lýsis sem selt er án lyfseðils. 

Liðin tíð 

Á hinn bóginn leiddi rannsóknin í ljós að fólk sem var með fyrirliggjandi hjartasjúkdóma í upphafi rannsóknarinnar, en tók reglulega lýsi, var í 15% minni hættu á að fá hjartaáfall í kjölfar gáttatifs og í 9% minni hættu á að láta lífið vegna hjartabilunar. 

Þannig eru lyfseðilsskyldar útgáfur af lýsi, eins og Vascepa og Lovaza, notaðar til að vinna gegn slíkum áhættuþáttum hjá fólki með hjarta- og æðasjúkdóma, sagði Freeman, en sala á lyfseðilsskyldu lýsi er meðal annars þekkt í Bandaríkjunum og Bretlandi.  

„Ég myndi segja það liðna tíð að fólk fari út í búð bara til að kaupa glas af lýsi í von um að það bæti heilsu þeirra, en lýsi gæti enn þá spilað hlutverk í lífi þeirra sem þegar eru veikir,“ sagði Freeman. 

Til útskýringar er munurinn á lýsi í lausasölu og lyfseðilsskyldu lýsi sá að lyfseðilsskylt lýsi inniheldur meira magn af virku efnasamböndunum í lýsi, svo sem omega–3 fitusýrum, auk þess að vera framleitt undir ströngu eftirliti. Í Bandaríkjunum er það Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (U.S. Food and Drug Administration (FDA)), sem annast eftirlit með framleiðslu lýsis. 

Betra að fá omega–3 fitusýrur úr fæðunni

Þegar kemur að lýsi þá er „djöfullinn í smáatriðunum,“ sagði alzheimer-taugalæknirinn Dr. Richard Isaacson, sem er forstöðumaður rannsókna við Institute for Neurodegenerative Diseases í Boca Raton í ríkinu Flórída. Hann tók ekki heldur þátt í rannsókninni.

„Í fyrsta lagi mælum við með því að prófa magn ómega-3 fitusýra [í líkamanum] - það eru fingurstungupróf sem þú getur keypt á netinu sem eru nákvæm. Þú vilt ekki taka lýsi ef þú þarft þess ekki,“ sagði hann.

Isaacson mælir með því að fólk reyni heldur að fá omega–3 fitusýrur úr fæðunni. Hann nefnir sem dæmi að sardínur og villtur lax innihaldi mikið magn ómettaðrar fitu og minna af kvikasilfri. Þá tekur hann fram að eldislax sé ekki vænlegur kostur vegna óhreininda í vatninu þar sem hann er ræktaður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert