Barnabarn Elvis Presley kærir uppboð á Graceland

Keough freistir þess að stöðva sölu á setri afa síns, …
Keough freistir þess að stöðva sölu á setri afa síns, rokkkóngsins El­vis Presley. AFP/Mandel Ngan/Angela Weiss

Barnabarn rokkkóngs­ins El­vis Presley, leikkonan Riley Keough, vinnur nú að því að stöðva fyrirhugað uppboð á Graceland, fyrrum heimili afa síns í Memphis, Tennessee. 

Keough erfði setrið og stóran hluta af búi afa síns eftir að móðir hennar, Lisa Marie Presley, lést á síðasta ári. BBC greinir frá. 

Móðir hennar er aftur á móti sögð hafa notað setrið sem veð í 3,8 milljón dollara lán, að andvirði um 540 milljóna íslenskra króna, sem enn hefur ekki verið endurgreitt. 

Segja undirskriftina falsaða 

Keough heldur því fram að svikum hafi verið beitt við pappírsvinnu lánsins og að undirskrift móður hennar hafi verið fölsuð. Hún hefur því höfðað mál til að freista þess að koma í veg fyrir að fyrirhugað uppboð fari fram á fimmtudag. 

Naussany Investments, fyrirtækið sem veitti lánið, hefur ekki enn tjáð sig opinberlega.

Elvis Presley Enterprises, sem rekur Graceland og aðrar eignir Elvis Presley Trust, heldur því jafnframt fram að lánið hafi aldrei verið veitt og að Lisa Marie hafi aldrei veitt undirskrift sína fyrir láninu. 

„Elvis Presley Enterprises getur staðfest að um svikular kröfur sé að ræða,“ segir í yfirlýsingu frá Elvis Presley Enterprises þar sem það er jafnframt undirstrikað að Keough hafi höfðað mál til að stöðva svikin. 

Fyrirhuguð sala ólögmæt 

Í kröfugerð Keough segir að fyrirhuguð sala sé ólögmæt og byggi á pappírsvinnu sem brýtur í bága við lög Tennessee. 

Ráðgert er að yfirheyrslur fari fram á morgun, að því er fram kemur í dómsskjölum. 

Elvis keypti Graceland árið 1957 og bjó þar þar til hann lést tveimur áratugum síðar, eða árið 1977. Snemma á níunda áratugnum var setrið síðan opnað almenningi sem einskonar tónlistarsögu–skemmtigarður og í dag laðar setrið að sér um það bil 600.000 gesti á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert