„Erfiðara fyrir kvikuna að komast upp“

Eldgosinu í Sundhnúkagígum lauk 9. maí.
Eldgosinu í Sundhnúkagígum lauk 9. maí. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir langlíklegast að það gjósi á Sundhnúkagígaröðinni en það geti alveg liðið tvær vikur til viðbótar áður en það fari að draga til tíðinda.

Um 17 milljón rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars þegar síðasta gos hófst á Sundhnúkagígaröðinni og er þetta næst mesta magn af kviku sem hefur safnast undir Svartsengi. Það mesta var 19 milljónir rúmmetrar fyrir gosið 18. desember.

Kvikan að safnast í grunnstæða geymsluhólfið

„Það er enginn gangur að myndast eða neitt slíkt heldur er kvikan að safnast í þetta grunnstæða geymsluhólf og það veldur spennu í þakinu ofan á sem virðist vera að losna í þessum skjálftum sem fylgja Sundhnúkareininni,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Þorvaldur reiknar með að yfirvofandi eldgos verði með svipuðum hætti og gosið sem hófst 16. mars og lauk 9. maí.

„Þó svo að kvikumagnið sé tvöfalt meira en minnsta magnið sem hefur mælst þá stjórnar það meira lengd gossins frekar en afli. Það getur vel verið að þetta gos verði eitthvað kröftugra og verði svipað því og var 18. desember,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þorvaldur segir að ef gosið verði kröftugt í byrjun þá muni krafturinn í því detta fljótt niður.

„Það gleymist oft í þessari umræðu að þetta er svo lítið kvikumagn sem hefur safnast í grynnra geymsluhófið miðað við það sem við höfum séð í eldri gosum á landinu. Ef við setjum þetta í rúmkílómetra þá erum við að tala um 0,01-2 en í gosinu í Holuhrauni var magnið 1,2 rúmkílómetrar,“ segir Þorvaldur.

Gangurinn orðinn deigur

Hann segir að meginkvikumagnið sé í stóra geymsluhólfinu, sem sé á rúmlega átta til tólf kílómetra dýpi. Þorvaldur segir að þar séu tugir milljónir rúmmetrar af kviku og smá leki af henni sé að viðhalda virkninni í Svartsengi og við Sundhnúkagíga.

„Kvikan sem kom í fyrri gosum er tiltölulega volg og gangurinn er þar með orðinn deigur. Þar af leiðandi er erfiðara fyrir kvikuna að komast upp. Hún er þá kannski að leita einhverra annarra leiða og þá gæti tekið lengri tíma fyrir hana að brjótast upp á yfirborðið,“ segir Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka