„Það mun ekki fara framhjá okkur“

Staðan í Svartsengi er óbreytt frá því í morgun.
Staðan í Svartsengi er óbreytt frá því í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki virðist ætla að draga til tíðinda í Svartsengi enn og er staðan óbreytt frá því í morgun að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Í samtali við mbl.is segir Sigríður Kristjánsdóttir engar breytingar hafi mælst á svæðinu að undanskildum þrýstingsbreytingum í í bor­holu HS Orku á Svartsengi í morg­un. 

„Við höfum verið að fylgjast með þessu en það eina sem er eitthvað öðruvísi er þessar þrýstingsbreytingar í borholunni en annað er alveg eins og það hefur verið síðustu daga,“ segir Sigríður og bætir við að ekki sé endilega auðvelt að túlka hvað það kunni að þýða. 

Geti látið bíða eftir sér

Spurð hvort um sé að ræða lognið á undan storminum kveðst Sigríður ekki þora að fullyrða um það. Veðurstofan sé þó að vakta aðstæðurnar með hliðsjón af því að byrjað geti að gjósa hvað úr hverju. Enn sé þó spurning hvort gosið muni láta bíða eftir sér. 

„Það mun ekki fara framhjá okkur þegar þetta fer í gang. Það verður alveg áköf skjálftavirkni og við munum líka sjá aflögun þó að fyrirvarinn verð kannski skammur. Við búumst nú samt við því að það verði einhver merki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka