Ísraelar ævareiðir yfir ákvörðun Evrópulandanna

Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, segir ákvörðun ríkjanna til þess fallna …
Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, segir ákvörðun ríkjanna til þess fallna að verðlauna Hamas-hryðjuverkasamtökin fyrir hryðjuverk. AFP/Abir Sultan

Ísraelar eru ævareiðir yfir ákvörðun Írlands, Noregs og Spánar um að viðurkenna sjálfstæði Palestínu.

Löndin tilkynntu um ákvörðun sína í dag og hyggjast þau öll viðurkenna ríki Palestínu formlega þann 28. maí. Ákvörðunin hefur vakið lof margra landa í araba- og múslimaheiminum.

Jafngildi verðlaunum fyrir hryðjuverk 

Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, segir ákvörðun ríkjanna um að viðurkenna sjálfstæði Palestínu jafngilda „verðlaunum fyrir hryðjuverk“ enda hafi Hamas-hryðjuverkasamtökin hafið átökin með árás sinni þann 7. október.

Síðan löndin tilkynntu um ákvörðun sína í dag hafa Ísraelar kallað heim bæði sendifulltrúa sína og sendiherra frá Dublin, Osló og Madríd til að ræða málin frekar.

Þjóðarör­ygg­is­ráðherra Ísra­els, Ita­m­ar Ben Gvir, er sama sinnis og Net­anja­hú og segir ákvörðunina verðlauna „morðingja og árásarmenn“.

Ekki hægt að bíða með ákvörðunina 

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að Joe Biden forseti sé andvígur einhliða viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Hann vilji frekar að það gerist með „beinum samningaviðræðum“.

Flestar vestrænar ríkisstjórnir, þar á meðal Bandaríkin, segjast reiðubúnar til að viðurkenna palestínskt ríki einn daginn. Það vilja ríkisstjórnirnar þó ekki gera fyrr en vandmeðfarin mál eru leyst. Þar á meðal mál er varða endanleg landamæri og stöðu Jerúsalem.

Jon­as Gahr Støre, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, er þó ekki þeirrar skoðunar að hægt sé að bíða með ákvörðunina þar til eftir að friðarsamkomulag næst. Þannig segir hann að viðurkenning á Palestínu sé leið til að „styðja hófsöm öfl sem hafa verið að tapa fylgi í langvarandi og hrottalegum átökum.“

Tveggja ríkja lausnin í hættu 

Pedro Sanchez, for­sæt­is­ráðherra Spán­ar, segir að Net­anja­hú „valdi svo miklum sársauka, eyðileggingu og gremju á Gasa og restinni af Palestínu að tveggja ríkja lausnin sé í hættu.“

Þá kallaði Simon Harris, for­sæt­is­ráðherra Írlands, árásina þann 7. október „villimannslega“ en lagði á sama tíma áherslu á að „tveggja ríkja lausn væri eina leiðin út úr kynslóðalotu ofbeldis, hefndaraðgerða og gremju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka