„Margir lögreglumenn eru í rauninni í tveimur störfum“

Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Við erum bara að segja að lögreglan getur ekki skorið meira niður ef það á að halda úti þeirri þjónustu sem ætlast er til. Það er þá bara betra að segja við getum ekki haldið úti þeirri löggæslu á Íslandi sem við vorum búin að lofa.“

Þetta segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við mbl.is. Hann segir sambandið vonast til þess að boðuð niðurskurðarkrafa gangi ekki í gegn. Geri hún það muni það bitna verulega á þjónustu við almenning. 

Þá séu húsnæðismál einnig mikið áhyggjuefni enda séu sumar lögreglustöðvar ekki mönnum sæmandi. Bendir Fjölnir á að pyntinganefnd Evrópuráðsins hafi sett út á lögreglustöðvar og fangaklefa víða á landinu t.d. í kjallaranum á lögreglustöðinni á Selfossi.

Færri en 20 á vakt á höfuðborgarsvæðinu

Segir Fjölnir lögreglumönnum hafa fækkað verulega á síðustu árum, sérstaklega í kjölfar sameiningu lögreglunnar í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi árið 2007. Í dag séu stundum færri en 20 lögreglumenn á vakt á öllu höfuðborgarsvæðinu.

„Það eru kannski 4-5 bílar fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Við erum að benda á það að fyrir sameininguna árið 2007 þá voru svona margir bílar bara í Reykjavík.“

Fyrir liggi að fjölga þurfi lögreglumönnum og ef miðað er við aðrar borgir í heiminum þyrfti að fjölga um 200 lögreglumenn. 

„Hver á að greiða launin?“

Landssamband lögreglumanna óttist að niðurskurður til löggæslu verði til þess að þjónusta við fólk skerðist allverulega. Niðurskurður muni óhjákvæmilega leiða til uppsagna og/eða að fleiri lögreglumenn verði ekki ráðnir inn, enda séu laun stærstu útgjöld lögreglunnar.

„En svo skil ég ekki alveg að það sé verið að fjölga í lögregluskólanum úr 40 upp í 80, en svo skera þeir niður. Ég veit ekki hvernig það á að vera hægt að ráða þetta fólk inn,“ segir Fjölnir. 

„Hver á að greiða launin?“ 

Fjölnir segir fjölda rannsóknarlögreglumanna sinna t.d. mótmælum. Á meðan bíði …
Fjölnir segir fjölda rannsóknarlögreglumanna sinna t.d. mótmælum. Á meðan bíði önnur verkefni. Eggert Jóhannesson

Rannsóknarlögreglumenn hlaupa í skarðið

„Þetta mun líka bitna á rannsóknarhraða, ég vinn sjálfur í kynferðisbrotadeild og maður vill auðvitað að fólk fái úrlausn sinna mála eins fljótt og hægt er. En það fara fljótt að myndast málahalar mjög víða og fólk mun fá verri þjónustu,“ segir Fjölnir.

„Margir lögreglumenn eru í rauninni í tveimur störfum. Eins og lögreglumenn sem eru við öll mótmæli og svoleiðis, þetta eru bara rannsóknarlögreglumenn. Þeir klæða sig bara í búning og koma svo og sinna þessu verkefni. En á meðan bíður hin vinnan þeirra.“

Hann viti þegar til skerðinga á lögreglustarfsemi víða á landinu en til að mynda hafi lögreglan á Vesturlandi nýlega lagt af næturvaktir og sé í staðinn með bakvaktir. Sama staða sé á Austurlandi og Norðurlandi vestra.

Dregst úr árangri vegna niðurskurða milli ára

„Það truflaði okkur smá að dómsmálaráðherra segðist telja að þetta myndi ekki bitna á þjónustunni. Bara í einu útkalli eru kannski fimm lögreglumenn að sinna því. Þeir eru þá ekki að gera annað á meðan og þá eru bara fimmtán eftir á höfuðborgarsvæðinu að sinna öllu hinu.“ 

Segir Fjölnir niðurskurðinn ekki ríma við yfirlýsingar ráðamanna um að áhyggjur séu uppi um löggæslumál. Lítið ávinnist ef fjármagn sé aukið eitt ár og skorið niður um sömu upphæð næsta ár, enda dragi úr þeim árangri sem hafi verið náð.

„Það er settur peningur í átaksverkefni og svo er bara niðurskurður næsta ár upp á sömu upphæð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka