Deilir áhyggjum lögreglu

Dómsmálaráðherra segir mikilvægt að fjölga lögreglumönnum og ráða bót á …
Dómsmálaráðherra segir mikilvægt að fjölga lögreglumönnum og ráða bót á húsnæðismálum lögreglu. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra kveðst deila áhyggjum landssambands lögreglumanna á stöðunni í löggæslumálum að vissu leyti. Mikilvægt sé þó að hafa í huga að fjárveitingar hafi verið stórauknar í fyrra.

Fjárveitingar til löggæslumála hafi verið auknar um 1.5 milljarð í fyrra til samanburðar við 760 milljónir árið áður.

 „Það er mesta styrking lögreglu sem við höfum séð á síðustu 10 árum, á síðasta ári, og síðan á þessu ári erum við að sjá 200 milljónir fara til lögreglunnar,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir í samtali við mbl.is

Fjöldi lögreglunema tvöfaldaður

„En ég deili alveg þessum áhyggjum. Þetta er verkefni sem er alltaf fyrir framan okkur, að styrkja lögregluna og fjölga lögreglumönnum og þá kannski fyrst og síðast í almennri löggæslu.“

Segir Guðrún nú unnið að kappi við að fjölga nemendum við lögregluskólann til að fjölga lögreglumönnum í langtíma samhengi. Þegar hafi fjöldi nemenda tvöfaldast á milli ára eða úr 40 nemendum upp í 80.

Vinna sé nú að hefjast á nýrri löggæsluáætlun en sú síðasta rann sitt skeið um áramótin. Stefnt sé að því að kynna nýja áætlun síðsumars.

„Þar vil ég horfa á þessa mannaflaþörf og líka til framtíðar. Við höfum heyrt að það vanti lögreglumenn, sérstaklega í almennri löggæslu á höfuðborgarsvæðinu, og ég er meðvituð um það,“ segir Guðrún og kveðst skilja að lögreglumenn séu uggandi yfir stöðunni.

Mega ekki missa fólk úr lögreglunni

Sagði í ályktun Landssambands lögreglumanna að með niðurskurðinum mynd álag á einstaka lögreglumenn aukast verulega, þar sem fjölgun lögreglumanna væri ekki í samræmi við öra íbúa-, og ferðamannafjölgun.

Spurð hvort ekki sé áhyggjuefni að með niðurskurðinum muni sumir lögreglumenn mögulega hverfa úr starfi vegna álags svarar Guðrún játandi. Mikilvægt sé að að tryggja að lögreglustarfið sé eftirsóknarvert.

„Jú ég hef áhyggjur af því og vil horfa til þess líka í löggæsluáætluninni. Það er ekki bara að fjölga alltaf nýjum lögreglumönnum. Við verðum að sjá til þess að við missum ekki fólk úr lögreglunni,“ segir Guðrún.

„Þar skiptir máli að starfsumhverfi lögreglunnar sé gott, að húsnæðismálin séu góð og að við tryggjum öryggi lögreglunnar í starfi í breyttum heimi þar sem við sjáum teikn á lofti um að það sé meiri harka á götum úti.“

Kveðst ráðherrann sömuleiðis vilja nýta tækifærið til að þakka lögreglunni fyrir frábær störf við aðstæður sem hún sé meðvituð um að séu krefjandi.

Deilir áhyggjum af húsnæðismálum

Hún deili áhyggjum lögreglumanna af húsnæðismálum og hún leggi mikla áherslu á að leysa þann vanda.  Sérstaklega hafi hún áhyggjur af Suðurnesjum þar sem lögreglan hefur nánast verið húsnæðislaus síðan í vetur vegna myglu. Greining á húsnæðisþörf þar sé nú í fullum gangi.

„Við erum þá líka að horfa til starfsemi löggæslunnar á Keflavíkurflugvelli, í því ljósi. Okkur vantar t.d. fangaklefa í nálægð við flugvöllinn,“ segir Guðrún en bætir við að einnig þurfi að leysa úr húsnæðismálum lögreglunnar á Suðurlandi, sérsveitarinnar og lögreglunnar á Vesturlandi. 

Fjárveitingar mismunandi milli ára

En hvernig er raunhæft að mæta þessum vandamálum, sem þegar voru uppi þegar fjárveitingar voru hærri, með minni fjárveitingum?

„Ég get sagt það að eins og t.d á síðasta ári þá kom gríðarlega mikið fjármagn til styrkingar lögreglunnar. Þá komu 15 hundruð milljónir og hefur ekki verið, ég held aldrei, svona mikil aukning. Hún getur ekki verið svo mikil ár eftir ár,“ segir Guðrún og bendir á að sum ár hafi framlög til löggæslu ekki verið aukin yfirhöfuð. Það sé einfaldlega mismunandi eftir árum.

„Þetta er bara viðfangsefni stjórnmálanna og viðfangsefni mitt sem ráðherra að tryggja örugga löggæslu í landinu og það ætla ég að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert