Rændu milljörðum á 12 sekúndum

Grafið er eftir rafmynt í gagna­ver­um.
Grafið er eftir rafmynt í gagna­ver­um.

Stundum er sagt að margur vilji heldur efnast hratt í stað þess að sýna þolinmæði og útsjónarsemi. 

Líklega mætti fullyrða slíkt um bræðurna Anton Peraire-Bueno og James Peraire-Bueno sem komust yfir milljarða á 12 sekúndum sem gæti hæglega verið einhvers konar brautarmet. 

Er þeim gefið að sök að hafa stolið þessum fjármunum í formi rafmyntar og bíða nú þess að vera leiddir fyrir dómara. 

Þeir bræður Anton og James eiga að hafa rænt rafmyntinni Ether fyrir um fjóra milljarða á þessum 12 sekúndum í apríl í fyrra. Saksóknari í Bandaríkjunum segir þá hafa lagt á ráðin um þjófnaðinn mánuðum saman þótt framkvæmdin hafi tekið skamma stund. 

Ekki á færi meðalmanna

Lét saksóknarinn þess jafnframt getið að bandarísk skattayfirvöld hafi leikið lykilhlutverk í því að leysa málið sem sé fyrsta þessara tegundar. 

Fram kemur hjá ákæruvaldinu að ekki hefði verið á færi meðalmanna að útfæra þjófnaðinn en bræðurnir menntuðu sig í MIT í Massachusetts sem er einn virtasti háskóli í heimi. Þar námu þeir tölvunarfræði og stærðfræði. 

Verði þeir fundnir sekir gætu þeir átt yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóma samkvæmt frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert