Vill að Ísrael rannsaki meintar pyntingar á föngum

Frá því að stríð hófst á Gasaströndinni hafa æ fleiri …
Frá því að stríð hófst á Gasaströndinni hafa æ fleiri ásakanir stungið upp höfði um að palestínskum föngum sé misþyrmt í fangelsum í Ísrael. AFP

Mannréttindasérfræðingur á vegum Sameinuðu þjóðanna hvetur stjórnvöld í Ísrael til að rannsaka meintar pyntingar og misþyrmingar á palestínskum föngum í Ísrael frá því að stríð hófst á Gasaströndinni.

Alice Jill Edwards, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) um pyntingar, segist hafa heyrt ýmsar ásakanir um misnotkun á Palestínumönnum sem eru í fangelsum.

Talið er að þúsundir Palestínumanna, þar á meðal börn, hefðu verið í haldi frá því að stríðið braust út, að sögn Edwards.

Hún segir í samtali við AFP-fréttaveituna að hún hafi undanfarna tvo mánuði unnið að ítarlegri úttekt sem byggi á mörgum heimildum, en að rannsókn sín haldi áfram.

Hótað líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi

Í yfirlýsingu nefnir hún ýmsar ásakanir sem hún hefur heyrt. Fangar séu ýmist barðir, handjárnaðir og vistaðir lengi inni í fangaklefum og með bundið fyrir augu sín. Þá hafi fangaverðir komið í veg fyrir að fangarnir fái nægan svefn og föngum hótað bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Þá hefðu fangar einnig verið smánaðir m.a. með því að taka ljósmyndir af þeim í niðurlægjandi stellingum.

Edwards er óháður sérfræðingur í mannréttindamálu og er skipuð af mannréttindaráði SÞ þó hún tali ekki fyrir hönd SÞ. Hún segist enn ekki hafa nægar upplýsingar til að geta sagt til um hvort meint misnotkun gæti verið kerfisbundin.

Hún hefur vakið máls á þessu við ísraelsk stjórnvöld og beðið þau um að rannsaka málið auk þess að veita Edwards og alþjóðlegum eftirlitsmönnum aðgang að fangelsunum.

„Það er mjög mikilvægt að það séu óháðar rannsóknir,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka