Allir muna eftir því þegar Ísland vann England

Íslenska liðið fagnar marki gegn Englandi á EM 2016.
Íslenska liðið fagnar marki gegn Englandi á EM 2016. AFP

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Englandi og Hollandi í vináttulandsleikjum á útivöllum þeirra í næsta mánuði.

Åge Hareide landsliðsþjálfari man vel eftir 2:1-sigri Íslands á Englandi á lokamóti EM í Frakklandi árið 2016, þegar íslenska liðið kom öllum á óvart og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum.

„Ég man eftir leiknum við England. Það muna allir eftir þeim leik því þetta var England. Ég var heppinn að ég var á staðnum árið 1981 þegar Noregur vann England í undankeppni EM. Það er þekktur leikur í Noregi því England er mekka fótboltans. Eina sem toppar að vinna England er að vinna Brasilíu,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í gær.

„Ísland sýndi allt sem gerir það að góðu liði í þeim leik. Vonandi getum við minnt leikmenn á að allt sé hægt í fótbolta. Ef þú hefur trú, gæði og leggur þig allan fram er allt mögulegt. Það verða allir að vita og muna það,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka