Mikilvægt að foreldrar fylgist vel með fréttum af veðri

Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi …
Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í eða úr skóla vegna veðurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, deildarstjóri almannavarna höfuðborgarsvæðisins, segir að ákveðið verklag gildi, sem er unnið með fræðsluyfirvöldum á höfuðborgarsvæðinu, hvernig eigi að bregðast við veðurviðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Í leiðbeiningunum segir að mikilvægt sé að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem geta haft áhrif á skóla- og frístundastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Mikilvægt er að fólk fari ekki af stað til skóla eða vinnu ef það treystir sér ekki eða er vanbúið til fara, t.d. ef bifreiðin er ekki búin til vetrarakstur.

Leiðbeiningar þessar eiga við yngri börn, það er börn yngri en 12 ára og er viðmið að ræða sem er háð mati forsjáraðila.

Vinnum samkvæmt gulri veðurviðvörun

„Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í eða úr skóla vegna veðurs, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forsjáraðilar aðstæður svo að ekki sé óhætt fyrir börn þeirra að sækja skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það sem lítur þá á tilvikið sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða forsjáraðilar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa,“ segir ennfremur í leiðbeiningum til foreldra og forráðamanna.

„Í gulri veðurviðvörun sem er í gangi þá vinnum þá er ákveðið hvernig forsjáraðilar eigi að bregðast við. Miðað við hvernig Veðurstofan metur veðrið í dag þá er gul viðvörun og við vinnum samkvæmt henni,“ segir Þóra Kristín við mbl.is.

Allir skólar og leikskólar eru opnir samkvæmt áætlun að sögn Þóru og hún segir að forsjáraðilar verði að meta það sjálfir hvort þeir fylgi börnum sínum í og úr skóla eða frístundarstarfi.

„Þessar leiðbeiningar eru inni á öllum heimasíðum skólanna og líklega hafa skólarnir sent út áminningu til foreldra til að minna þá á þær,“ segir Þóra Kristín.

Upplýsingar um viðvörunarkerfi Veðurstofunnar eru að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert