Millilandaflug: 21 flugferð seinkað hjá Icelandair

21 flugferð hefur verið seinkað hjá Icelandair vegna óveðursins.
21 flugferð hefur verið seinkað hjá Icelandair vegna óveðursins. mbl.is/Hörður Sveinsson

Icelandair hefur þurft að seinka 21 flugferð í dag vegna óveðursins. Á bæði við um komur og brottfarir. Ekki er búið að þurfa að aflýsa neinu millilandaflugi.

Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.

Öllum komuferðum frá Evrópu seinkar um 2-3 klukkutíma, 10 talsins, og lenda vélarnar því í fyrsta lagi eftir klukkan 17.30.

Sömuleiðis seinkar brottförum til Norður-Ameríku um 2-3 klukkutíma, 9 talsins, og eru þær ferðir nú áætlaðir upp úr klukkan 19.

Seinkun á ferðum til Lundúna og Kaupmannahafnar

Einnig seinkar svokölluðum seinniparts brottförum til Lundúna og Kaupmannahafnar, en þær tvær ferðir eru nú á áætlun eftir klukkan 19.

Það var allt á áætlun hjá Icelandair í morgun og var ekki flýtt fyrir neinum flugferðum, eins og flugfélagið Play gerði í morgun.

Ásdís hvetur fólk til að fylgjast vel með stöðu flugferða á vef Isavia en segir einnig að Icelandair sé í virkum samskiptum við viðskiptavini sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert