Ríkisstjórnin „eyðir eins og drukkinn sjómaður“

Hanna Katrín Friðriksson vitnaði í Heiðar Guðjónsson í pontu Alþingis.
Hanna Katrín Friðriksson vitnaði í Heiðar Guðjónsson í pontu Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hún [ríkisstjórnin] eyðir eins og drukkinn sjómaður.“ Þetta er mat fjárfestisins Heiðars Guðjónssonar sem þingmaður Viðreisnar vitnaði í og tók undir með í óundirbúnum fyrirspurnartíma í þinginu í dag. Fjármálaráðherra segir engan skort vera á útgjaldatillögum Viðreisnar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði í óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu að ríkisfjármálin væru í ólestri. Sagði hún að með áframhaldandi nálgun ríkisstjórnarinnar yrðu aðeins tveir kostir í stöðunni: Hærri skattar á millistéttina eða hærri skuldir. Hugnast henni hvorugt.

„Heiðar Guðjónsson fjárfestir gaf ríkisstjórninni þessa einkunn í útvarpinu í morgun: „Hún eyðir eins og drukkinn sjómaður. Alveg sama hvað gerist, það er ekkert sem stoppar.“ Þetta er rétt,“ sagði Hanna og spurði Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra hvaða þjónusta hefði batnað með þessum auknu útgjöldum.

Heilbrigðisþjónusta ekki versnað

Þórdís svaraði Hönnu og sagði vinna standa yfir að gerð fjármálaáætlunar þar sem verði tekið á einhverjum af þeim hlutum sem Hanna nefndi í sinni ræðu „en það þarf auðvitað að fara sína leið í þriggja flokka samstarfi“.

„Háttvirtur þingmaður fullyrðir hér að þjónusta í heilbrigðiskerfinu hafi ekki batnað. Ég er í fyrsta lagi ekki sammála því en segjum sem svo að það væri þannig að þjónusta í heilbrigðiskerfinu hafi ekki batnað - að þá hefur það nú ekki verið vegna þess að við höfum verið að skera þar niður eða ekki að bæta í fjármagn. Það er þá ýmislegt annað sem þarf að koma til,“ sagði Þórdís.

Skortir ekki útgjaldatillögur Viðreisnar

Hún nefndi að þau væru með aðhaldskröfur á stjórnarráðið og að þau væru vissulega með „allt of“ margar stofnanir. Hún nefndi einnig að ríkið sæti á miklu magni af eignum sem hún vilji byrja að losa um eignarhaldið á.

„Flokkur háttvirts þingmanns hefur – það hefur nú ekki skort á heldur – útgjaldatillögur sömuleiðis í því. Ég er ekki á þeirri skoðun að leiðin til þess að bæta ríkisreksturinn felist í frekari skattahækkunum, enda greiðum við hér eina hæstu skatta innan OECD,“ sagði Þórdís.

Hanna steig svo upp í pontu og hafnaði þessari fullyrðingu Þórdísar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert