Bjarni: „Allt saman alrangt“

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir að Ísland hafi sem framlagsríki til mannúðaraðstoðar í gegnum UNRWA sett jafn mikið og þeir sem setja allra mest í heiminum, sé framlag á hvern Íslending skoðað.

„Það er alrangt að við höfum ekki verið að gera nægilega mikið, að við höfum ekki sýnt mannúð og mildi og tekið tillit til hörmulegra aðstæðna. Þetta er allt saman alrangt,“ sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, þar sem rætt var um íbúa frá Palestínu sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

„Vandinn er hins vegar sá að við höfum ekki horfst í augu við afleiðingar þess að ganga of langt í þessum málaflokki. Þess vegna eru innviðirnir á Íslandi sprungnir og við getum ekki haldið áfram að senda út þau skilaboð að við ætlum að gera mest af öllum.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, spurði Bjarna hvort það stæði til af hálfu ráðherra að senda fulltrúa íslenskra stjórnvalda til þess að bjarga íslenskum dvalarleyfishöfum frá Gasa.

Hafið undirbúningsaðgerðir

Bjarni sagði að íslensk stjórnvöld hafi á undanförnum vikum verið að ræða í ráðherranefnd um útlendingamál þá stöðu sem sé komin upp á Íslandi og lýsir sér í því að ekki bara kostnaður heldur fjöldi þeirra sem leiti hælis á Íslandi sé kominn langt fram úr því sem á við á Norðurlöndunum almennt.

„Við höfum í mínu ráðuneyti verið að undirbúa það að geta sótt fólk á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum um þessa viðkvæmu stöðu, vegna þess að það er alveg hárrétt sem háttvirtur þingmaður segir að hún er grafalvarleg og fólk er í stórkostlegri lífshættu á þessu svæði og við höfum hafið undirbúningsaðgerðir til að geta brugðist við óskum um að hjálpa fólki út af svæðinu,“ sagði Bjarni jafnframt.

„Skömm að þessu“

Þórhildur hélt því fram að Bjarni væri tilbúinn „að bjarga konum og börnum frá aðstæðum sem Alþjóðadómstóllinn hefur lýst áhyggjum af að geti talist þjóðarmorð ef hann fær eitthvað í staðinn. Mannslíf eru í húfi og ráðherrann vill kreista loforð út úr Vinstri grænum og Framsókn um að þau gefi eftir þá litlu mannúð sem eftir situr á þeim bænum eftir sex ára samstarf við Sjálfstæðisflokkinn til að bjarga þeim.“

„Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti. Það er ekki boðlegt að ráðherra í ríkisstjórn Íslands sé tilbúin að víla og díla með mannslíf sem pólitíska skiptimynt. Það er skömm að þessu,“ sagði hún jafnframt.

Íslendingar taki fleiri en öll Norðurlöndin

„Háttvirtur þingmaður heldur því fram að við sýnum ekki nægilega mannúð. Við tökum ekki tillit til fólks í neyð. Staðreyndin er sú að við Íslendingar höfum samþykkt að fleira fólk komi til Íslands frá þessu svæði, ég er nýbúinn að rekja hérna tölurnar um það, að þeir sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu frá þessu svæði eru jafn margir í okkar tilviki og á við í heildina um öll Norðurlöndin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert