Launaliðurinn klár en samt slit á viðræðum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins sem er í Breiðfylkingunni.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins sem er í Breiðfylkingunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir breiðfylkingunni nauðbeygður sá kostur að slíta kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Málið sé honum þungbært þar sem búið var að semja um launaliðinn en málið strandi á því að SA vilji ekki hafa inni ákvæði um að hægt verði að segja samningunum upp ef verðbólga verður yfir 7% á samningstímanum. 

Að sögn Vilhjálms lágu breiðu línurnar fyrir hvað samninginn varðar og samkomulag um hann. Hins vegar hafi þetta forsenduákvæði staðið í SA fólki. 

„Við þurfum að geta varið okkar félagsfólk í langtímasamningi. Varið fólk þannig að ef forsendur verðbólgu og vaxta ganga ekki eftir þá verðum við að hafa uppi einhverjar varnir,“ segir Vilhjálmur Birgisson. 

Verðbólguspá upp á 3,5% 

Hann segir búið að ganga frá langflestum atriðum kjarasamnings og báðir aðilar séu sammála  markmiðum um lækkun vaxta og lækkun verðbólgu. Bendir hann á að verðbólguspá sé upp á 3,5% fyrir næsta ár og því forsenda upp á 7% verðbólgu hóflegt forsenduatriði í samningnum að hans mati. Þá sé gert ráð fyrir 2,5% vaxtalækkun í forsendum Breiðfylkingarinnar.  

Hann segir að hugmyndin hafi verið sú að hægt verði að segja upp samningi innan 14-15 mánaða ef vaxta og verðbólgumarkmið náist ekki. 

„Samtök atvinnulífsins gerðu okkur tilboð sem hefði þýtt það að okkar fólk hefði verið fast í samningi í þrjú ár án þess að nein viðmið hafi verið höfð til að miða við,“ segir Vilhjálmur.  

Skulda íslensku þjóðinni svör 

Hann segir samninginn núna 44% ódýrari en sá sem gerður var 2022 og gert er ráð fyrir því að hann sé til fjögurra ára. „Það er ekki forsvaranlegt að launfólk sitji uppi með alla áhættuna af verðbólgu. Það bara gengur ekki upp,“ segir Vilhjálmur.  

„Samtök atvinnulífsins skulda aðildarfyrirtækjum sínum og íslensku þjóðinni svör við því hvernig þau gátu látið það gerast, að þau séu með fordæmalausan kjarasamning í höndunum hvað kostnaðarhækkanir varðar, en láta hann stranda á ákvæðum sem kveða á um að ábyrgðin sé ekki öll á herðum launafólks,“ segir Vilhjálmur.  

„Ég hef aldrei lent í því áður að samningar standi á forsenduákvæði sem hafa verið í gildi í svo til öllum langtíma samningum sem gerðir hafa verið á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er nýlunda,“ segir Vilhjálmur.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert