Hrun í sölu nýrra rafbíla

Rafbíll í hleðslu.
Rafbíll í hleðslu. mbl.is/Árni Sæberg

Tæplega 50% færri rafbílar hafa selst á Íslandi frá áramótum en á sama tímabili í fyrra. Miðað er við fólksbíla og sölu til og með 16. febrúar. Þá hefur sala bensín- og díselbíla dregist saman um 45% á sama tímabili.

Þetta kemur fram í greiningu Brimborgar á tölum Samgöngustofu. Samkvæmt greiningunni hefur sala rafbíla hrunið í öllum flokkum hvort sem litið er til sölu til einstaklinga, fyrirtækja eða bílaleiga.


Nánar tiltekið dróst sala nýrra fólksbíla saman um 43% frá 1. janúar til og með 16. febrúar. Sala rafbíla var 49% minni og sala bensín- og díselbíla var 45% minni. Sé horft til febrúar eingöngu er samdrátturinn enn meiri. Um 54% samdráttur var þá í sölu fólksbíla og sala rafbíla dróst saman um 79%. Hins vegar dróst sala bensín- og díselbíla aðeins saman um 7%.

„Þetta var allt fyrirséð. Það var búið að benda á þetta og vara við þessu en það var ekki hlustað og núna erum við í þessari stöðu,“ segir Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar um áhrif hærri skatta á söluna.

Auknar álögur hafa áhrif

Kílómetragjald var lagt á rafbíla um áramótin og segir Egill það ekki einu ástæðuna fyrir hruninu heldur séu að birtast samanlögð áhrif átta aðgerða gegn orkuskiptum síðustu tvö ár.

Brynjar Elefsen Óskarsson forstjóri BL segir bílaumboðið hafa gert ráð fyrir 15-20% samdrætti í sölu rafbíla milli ára. Skattahækkanir hafi áhrif en fleira komi til.

„Ég held að kílómetragjaldið hafi líka truflað. Það er enginn vafi á því en svo eru ytri aðstæður að trufla líka og kannski mest. Þá meðal annars hátt vaxtastig og að ekki sé búið að ljúka kjarasamningum. Þannig að ég held að margir þættir komi saman og svo var mikil sala undir lok síðasta árs þegar hillti undir þessar breytingar,“ segir Brynjar um ástæður minni sölu.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert