Þegar Davíð færði Íslendingum ölið

Í dag eru 35 ár líðin frá því bjórdeginum var …
Í dag eru 35 ár líðin frá því bjórdeginum var fagnað. Frumkvæði Davíðs Scheving Thorsteinssonar lagði grunn að þeirri miklu breytingu á veitingamenningu landsmanna.

Búast má við því að hátíðarstemning verði víða á veitingastöðum í dag í tilefni 35 ára afmælis bjórdagsins. Hinn 1. mars árið 1989 var áratugalöngu banni við bjórsölu aflétt og landsmenn gátu nálgast drykkinn vinsæla á ný.

Hjalti Einarsson og Stefán Pálmason hjá RVK bruggfélagi með bjórinn …
Hjalti Einarsson og Stefán Pálmason hjá RVK bruggfélagi með bjórinn Þegar Davíð keypti ölið. mbl.is/Eyþór

Af þessu tilefni hefur RVK bruggfélag framleitt sérstakan hátíðarbjór sem kallast Þegar Davíð keypti ölið. Vísar nafngiftin til þess þegar Davíð Scheving Thorsteinsson iðnrekandi reyndi að taka með sér bjór til landsins í lok árs 1979. Á þeim tíma var bjórbann í gildi en flugáhafnir máttu þó taka ákveðið magn af bjór með sér inn í landið.

Neitaði að gera sátt í tollinum

Davíð keypti sér sex flöskur af bjór í fríhöfninni í Lúxemborg. Á Keflavíkurflugvelli lagði hann þær ofan á ferðatöskur sínar og fór í gegnum tollinn. Þar var honum boðið að gera sátt, enda hefði hann reynt að smygla bjór til landsins. Því neitaði hann, enda taldi Davíð sig engu hafa reynt að smygla. Bjórinn var gerður upptækur og honum tilkynnt að hann mætti eiga von á kæru.

Davíð Scheving skálaði fyrir áfanganum.
Davíð Scheving skálaði fyrir áfanganum.

„Mér fannst það fáránlegt að það væri hægt að mismuna fólki á þennan hátt og það fauk bara í mig,“ sagði Davíð Scheving þegar hann rifjaði þetta atvik upp síðar. Hann benti á hversu fáránlegt það væri að dóttir hans, sem starfaði sem flugfreyja, fengi að taka með sér bjór til landsins af því að hún ynni hjá öðru fyrirtæki en hann. Niðurstaðan varð sú að málið fór aldrei fyrir dóm. Sighvatur Björgvinsson fjármálaráðherra setti á reglugerð sem heimilaði öllum að flytja tiltekið magn af bjór inn í landið. „Ég er auðvitað ákaflega feginn þessum málalokum, þ.e. að ein lög skuli nú gilda yfir alla þegna landsins hvað þetta áhrærir,“ sagði Davíð Scheving í viðtali við Morgunblaðið þegar reglugerðin gekk í gildi 31. janúar 1980.

Þessar vendingar vöktu að vonum mikla athygli landsmanna og gleði. Þannig var greinilega vel fylgst með Davíð þegar hann fór næst til útlanda og eftir því tekið að hann keypti sér ekki bjór við komuna til landsins í febrúar 1980. „Konuna mína vantaði sherrý í súpuna og því keypti ég sherrý,“ sagði Davíð í baksíðufrétt Morgunblaðsins um málið.

Bjórdagurinn haldinn hátíðlegur á Gauki á Stöng árið 1989.
Bjórdagurinn haldinn hátíðlegur á Gauki á Stöng árið 1989. mbl.is/RAX

Einn af tímamótaviðburðunum í bjórsögunni

Sigurður Snorrason, einn eigenda RVK bruggfélags, segir að þetta uppátæki Davíðs flokkist sem einn af þeim tímamótaviðburðum sem hafi orðið til þess að bjórinn var að endingu leyfður hér á landi. „Þegar bjórinn fór að koma hingað næstum því óheftur frá 1980 var þetta ekki lengur neitt tiltökumál. Það gátu eiginlega allir fengið bjór og fólk fór smám saman að átta sig á að hann væri ekki eins slæmur og sumir vildu láta.“

Bjórinn Þegar Davíð keypti ölið er svokallaður India Pale Lager og er 5,8% að styrkleika. Myndskreytingin á dósunum vísar til umrædds atburðar og minnir eilítið á byltingargrafík frá fyrri árum. Bjórinn er kominn í sölu í Vínbúðum ríkisins og verður einnig seldur á völdum bjórbörum í Reykjavík. Sigurður varar við því að mjög lítið magn sé í boði og geti hann jafnvel klárast um helgina.

Umfjöllunin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. febrúar.

mbl.is/Eyþór
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert