Lokar hringnum í nýrri bruggverksmiðju

Valgeir Valgeirsson bruggmeistari í nýja húsnæðinu.
Valgeir Valgeirsson bruggmeistari í nýja húsnæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framleiðsla er komin á fullt í nýrri bruggverksmiðju Ölvisholts í Hvaleyrarholti í Hafnarfirði. Verksmiðjan var áður til húsa í gamalli hlöðu og fjósi austan við Selfoss en er núna komin í „gott iðnaðarhúsnæði” að sögn bruggmeistarans Valgeirs Valgeirssonar, sem hefur snúið aftur „heim” til Ölvisholts eftir áralanga fjarveru í öðrum brugghúsum.

„Við erum að gera þetta almennilega, eins og þetta átti alltaf að verða,” segir Valgeir, spurður út í nýja staðinn. Hann segir ákveðna endurræsingu felast í nýju verksmiðjunni. Húsnæðið hafi verið sniðið sérstaklega að þeirra þörfum, bjórtegundir verið endurskipulagðar og nýtt vörumerki sé jafnframt komið í gagnið.

Aftur heim

Ölvisholt hóf starfsemi árið 2007 og er næstelsta handverksbrugghús landsins á eftir bruggsmiðjunni Kalda. Valgeir var þá bruggmeistari en flutti sig síðar um set yfir til Ölgerðarinnar, þar sem hann starfaði meðal annars í Borg brugghúsi. Í framhaldinu fór hann yfir til RVK Brewery þar sem hann var meðeigandi, allt þar til hann ákvað að loka hringnum ef svo má segja og gekk aftur til liðs við Ölvisholt.

Uppskriftir í stöðugri þróun

Spurður nánar út í endurskipulagningu tegunda segir hann að útlit þeirra, fyrir utan Lava, hafi verið tekið í gegn, meiri áhersla lögð á bjórana sem þeir eru ánægðastir með, auk þess sem einhverjum uppskriftum var breytt, sumum hverjum gömlum uppskriftum frá Valgeiri.

Valgeir fær sér sopa af bjór.
Valgeir fær sér sopa af bjór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vinnutilhögunin hjá mér er sú að allar uppskriftir hjá mér eru alltaf í stöðugri þróun. Allt sem er gott getur alltaf verið betra,” greinir hann frá.

Hátt í 10 tegundir eru í boði hverju sinni hjá Ölvisholti. Inntur eftir því hver sé mest seldi bjór brugghússins nefnir hann Session IPA en bendir á að þeir séu einnig komnir með bjórinn Classic, auk léttbjórs.  

„Svo erum við með Lava áfram, verðlaunabjórinn okkar. Hann helst alltaf óbreyttur.”

„Rétt að byrja“

Fjórir starfsmenn eru í fullu starfi í brugghúsinu. Til stendur jafnframt að vera með sal til útleigu í Hvaleyrarholtinu, til að mynda fyrir veislur, brúðkaup og fermingar. Mögulega verður hægt að koma þangað einnig í bjórsmökkun.

„Við erum rétt að byrja,” segir Valgeir, ánægður með að hafa lokað hringnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert