Langtímasamningur á teikniborðinu

Frá fundi hjá ríkissáttasemjara fyrr í vikunni. Ástráður Haraldsson, Vilhjálmur …
Frá fundi hjá ríkissáttasemjara fyrr í vikunni. Ástráður Haraldsson, Vilhjálmur Birgisson, Sólveig Anna Jónsdóttir og Hilmar Harðarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðfylking stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins hafa náð saman í viðræðum um nýjan kjarasamning að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins. 

Unnið er að ýmsum frágangi varðandi samninginn og verður farið yfir þau atriði í kvöld og á morgun. Vilhjálmur segir að mögulegt væri að undirrita nýjan samning á morgun en segir það standa og falla með afstöðu nokkurra sveitarfélaga. 

„Við erum á lokametrum þess að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Hins vegar virðist vera að nokkur sveitarfélög séu að verða þess valdandi að tvísýnt sé hvort hægt verði að undirrita kjarasamning á morgun eða ekki,“ segir Vilhjálmur en fjögurra ára samningur er á teikniborðinu og því samið til langs tíma. 

„Við erum langt komin. Nú er verið að ljúka síðustu atriðunum og textagerðinni. Verður það tilbúið til yfirlestrar á morgun. Því verður ennþá sorglegra ef ekki verður hægt að undirrita vegna afstöðu nokkurra sveitarfélaga,“ segir Vilhjálmur en um er að ræða hugmynd um gjaldfrjálsar máltíðir fyrir grunnskólabörn sem kjörnir fulltrúar á sveitastjórnarstiginu virðast misjafnlega hrifnir af eins og fram hefur komið. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, botnar lítið í afstöðu fulltrúum …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, botnar lítið í afstöðu fulltrúum nokkurra sveitarfélaga varðandi hugmyndina um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Algerlega óásættanlegt“

„Við höfum reynt að vinna að málinu í dag en mér sýnist að sú tilraun hafi ekki borið árangur. Alla vega eins og staðan er akkúrat núna [snemma í kvöld]. Er það algerlega óásættanlegt sérstaklega í ljósi þess að ávinningur sveitarfélaga, af því sem við erum hér að teikna upp, er æpandi. Ekki bara hvað varðar að ná niður verðbólgu og vöxtum heldur einnig varðandi ávinning sveitarfélaga,“ segir Vilhjálmur en tekur fram að hann setji ekki öll sveitarfélög undir þennan hatt í þessum efnum. 

„Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög segjast ætla að taka þátt í að vera með fríar skólamáltíðir. Nokkur sveitarfélög virðast ekki ætla að taka þátt í þessu eða eru með miklar athugasemdir við þetta. Þau eru þar af leiðandi ekki tilbúin að axla sína ábyrgð í þeirri vegferð sem er verið að fara. Ábyrgð þeirra bæjarstjórna og bæjarstjóra er gríðarleg. Á borðinu liggur langtíma kjarasamningur til fjögurra ára. Kjarasamningur sem er byggður upp með hófstilltum hætti og til að stuðla að lækkun á verðbólgu og vöxtum. Kjarasamningur sem mun skila sveitarfélögum lægri launahækkunum sem nema 10-12 milljörðum króna. Á sama tíma er verið að agnúast yfir einum milljarði sem lýtur að skólamáltíðum.  Það verður þeirra að svara fyrir að stefna þessari undirskrift í hættu,“ segir Vilhjálmur Birgisson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert