Er testósterónið tískubóla?

Læknarnir Sigurdís Haraldsdóttir og Kolbrún Pálsdóttir eru uggandi yfir mikilli …
Læknarnir Sigurdís Haraldsdóttir og Kolbrún Pálsdóttir eru uggandi yfir mikilli aukningu á hormónalyfjagjöf til kvenna á breytingarskeiði og telja að slíkt þurfi að ígrunda vel. mbl.is/Ásdís

Á kvennadeild Landspítalans voru mættar þær Kolbrún Pálsdóttir, kvensjúkdómalæknir og krabbameinsskurðlæknir, og Sigurdís Haraldsdóttir, krabbameinslæknir og dósent, til að leggja orð í belg um hormónalyf sem margar konur taka inn um eða eftir tíðahvörf. Konur á breytingarskeiði upplifa margar líkamleg og andleg einkenni sem hafa mikil áhrif á líf og líðan. Því er ekkert óeðlilegt að vilja fá lyf sem geta slegið á einkennin og bætt líðanina. Konum er gjarnan ávísað tvennu; estrógeni og prógesteróni og oft er testósteróni bætt við. Sífellt fjölgar íslenskum konum sem nota hormónin og segja Kolbrún og Sigurdís þessa gífurlegu aukningu umhugsunarverða. Í dag er nærri helmingur kvenna á aldrinum 50-60 ára á hormónum, miðað við tæplega 30% fyrir þremur til fimm árum.

Rannsóknin var stöðvuð

„Við héldum málþing á læknadögum um krabbamein og hormóna því við höfum tekið eftir mikilli aukningu á notkun á hormónalyfjum. Við fórum að skoða þetta frá ýmsum hliðum,“ segir Kolbrún og nefnir að notkun á estrógeni hafi tvöfaldast, notkun á prógesteróni áttfaldast og testósterónnotkun hafi sextánfaldast.

„Þetta er dramatísk aukning,“ segir Sigurdís.

Kolbrún segir að skoða verði málið langt aftur í tímann, en um aldamótin hafi verið litið á notkun hormóna sem yngingarmeðal.

„Þá var mjög algengt að konur væru á hormónum og væru jafnvel að taka þau lengi. Stór rannsókn var gerð á þessum tíma og niðurstöður birtar 2002. Þá var verið að skoða tengslin við hjarta- og æðasjúkdóma og einnig áhættuna á að þróa með sér brjóstakrabbamein. Rannsóknin var stoppuð áður en hún var búin því það sást aukin áhætta á brjóstakrabbameini og einnig var sýnt fram á að áhrif hormónalyfja á hjarta- og æðasjúkdóma voru ekki eins góð og haldið var,“ segir Kolbrún, en eftir að þessi niðurstaða var ljós urðu þáttaskil í lyfjaávísunum þessara lyfja.

„Eiginlega fór þetta úr því að allar konur voru á þessu yfir í að engin kona fékk uppáskrifað. En smám saman hefur orðið endurvakning á umræðunni og margar rannsóknir sýna líka fram á góð áhrif við notkun hormóna sem eiga rétt á sér í mörgum tilvikum,“ segir Kolbrún og nefnir að nú sé tími til kominn að staldra aðeins við því ljóst er að eitt henti ekki öllum.

„Við viljum ekki vera í öfgunum, heldur finna einhverja millileið því það eru konur sem hafa gagn af hormónum,“ segir Sigurdís og vill meta grunnáhættuna fyrir brjóstakrabbameini áður en lyfjunum er ávísað.

Óafturkræfar aukaverkanir

Við ræðum aðeins þá staðreynd að notkun á testósteróni meðal íslenskra kvenna hafi sextánfaldast á síðustu þremur árum, en testósterón er karlhormón sem stundum er gefið konum í litlum skömmtum. Talið er að þessi hormón geti aukið kynhvöt, meðal annars.

„Það hefur lítið verið rætt um þetta. Þessi mikla aukning á stuttum tíma vakti okkur til umhugsunar. Við erum ekki með góð lyfjaform sem eru búin til fyrir konur og auk þess vantar alveg rannsóknir varðandi langtímaáhrif testósteróns á hjarta og æðar,“ segir Kolbrún og nefnir að ef til vill sé testósterónnotkun kvenna tískubóla.

„Testósterón getur valdið aukaverkunum sem eru óafturkræfar, eins og skallamyndun, dýpri rödd og auknum hárvexti,“ segir Sigurdís.

Þurfum að ræða lífsstíl

„Við þurfum að tala um lífsstílinn; að minnka streitu, stunda líkamsrækt, huga að áfengisneyslu og þyngd,“ segir hún og nefnir að við sumum einkennum, eins og svitakófum, gæti virkað að taka ákveðna tegund af þunglyndis- og kvíðalyfjum í stað hormóna fyrir konur með frábendingu fyrir hormónameðferð.

„Þessi fræði eru flókin og við erum ekki með öll svörin. En við viljum taka fram að við erum ekki á móti því að þær konur sem á þurfa að halda fái hormónameðferð. En það þarf að huga að mörgum þáttum, eins og að fylgja eftir meðferðinni,“ segir Kolbrún að lokum.

Ítarlegt viðtal er við læknana tvo í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert