Efast um að hann fái það fé sem hann vill

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. Eyþór Árnason

Sigurður Ingi Jóhannsson segir gríðarlega áskorun felast í uppsöfnuðu viðhaldi á vegakerfinu, sem Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga meta á 110 milljarða króna.

Sigurður Ingi telur skilning á málinu í ríkisstjórn en segir: „Hvort ég fái alla þá fjármuni sem ég myndi vilja, það efast ég um.“

Fjallað var ítarlega um þennan uppsafnaða vanda í Morgunblaðinu á fimmtudaginn. Kom þar fram að á þessu ári væru veittir 12,8 milljarðar í viðhald vega. Upphæðin þyrfti hið minnsta að vera 17-18 milljarðar til að halda í horfinu og meira til að vinna á skuldinni.

Vandinn nær tvöfaldast á tveimur árum

Athygli vekur að Vegagerðin taldi árið 2020 uppsafnaðan vanda nema 60-65 milljörðum og því ljóst að sú tala hefur hækkað umtalsvert á stuttum tíma. Sigurði Inga segir við mbl.is að á síðustu 7 árum hafi þó fjármagn til viðhaldsverið aukið mikið.

„Þetta er gríðarleg áskorun. Frá því að ég kom inn í innviðaráðuneytið hef ég hækkað meira en 100% fjármagn til viðhalds, úr 5,5 milljörðum, sem það var árið 2017, yfir í nær 13 milljarða.“

Viðhald hafi verið vanrækt í of langan tíma

Sigurður Ingi segir að áhersla hafi verið lögð á viðhald vega bæði í fjármálaáætluninni í fyrra og aftur á þessu ári og eins í samgönguáætlun.

Hann segir að Vegagerðin hafi komið fram með hugmyndir um að 18 milljarða þurfi nú í viðhaldsframkvæmdir og leggi hann slíkt fram.

Viðhaldi vega hafi ekki verið sinnt í allt of langan tíma. „Hitt er svo það að margir innviða okkar eru að sæta miklu meira álagi en var áður, ég nefni sem dæmi, að það var 19% aukning umferðar á Suðurlandsvegi á milli febrúar 2023 og febrúar 2024,“ segir ráðherrann.

Vonast eftir meira fé en fleira þurfi að fjármagna

Sigurður Ingi segist vona að sjónarmið hans um aukið fé til viðhalds vega nái fram að ganga innan ríkisstjórnar.

„En það er auðvitað áskorun þegar maður horfir á ýmsa aðra þætti sem við þurfum að fjármagna líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert