Hefur notað þrjú ólík eftirnöfn

Gæsluvarðhaldsúrskurður var staðfestur.
Gæsluvarðhaldsúrskurður var staðfestur. mbl.is/Sigurður Bogi

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir erlendum manni sem ítrekað hefur komið til landsins, er í tvöföldu endurkomubanni á Schengen svæðinu og hefur verið brott- og frávísað frá Íslandi. Fram kemur í úrskurði að maðurinn hafi notast við þrjú ólík eftirnöfn. 

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem síðar var áfrýjað til Landsréttar að maðurinn hafi komið hingað til lands þann 28. febrúar síðastliðinn. Var hann færður í gæsluvarðhald vegna gruns um að hann uppfyllti ekki skilyrði um að koma til landsins.

Í tvöföldu endukomubanni 

Maðurinn ferðaðist sem ferðamaður og hafði þá skipt um eftirnafn frá því honum var vísað af landi brott. Hið nýja eftirnafn var eftirnafn eiginkonu hans en fram kemur að hann hafi gengið í hjónaband í febrúar. Ferðaðist maðurinn á gildu vegabréfi. 

Í úrskurði segir að maðurinn hafi ítrekað komið til landsins og notast við þrjú mismundandi eftirnöfn. Við skoðun á málum hans í kerfum lögreglu komu í ljós ítrekuð afskipti af honum hér á landi og að hann er í endurkomubanni á Schengen svæðið frá 12. júní 2019 til 22. maí 2025.

Við uppflettingu í eftirlitskerfum Schengen hefur einnig komið í ljós að varnaraðili er raunar í tvöföldu endurkomubanni, hinu síðara til 17. júlí 2026. Þrátt fyrir það hafði maðurinn fengið stimpil í Ungverjalandi í hinu nýja vegabréfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert