Mikið dregið úr gosinu og horft til Eldvarpa í vestri

Drónaskot af eldgosinu frá Njarðvik.
Drónaskot af eldgosinu frá Njarðvik. Ljósmynd/Halldór Kr. Jónsson

„Það hefur dregið mikið úr gosinu. Enn er eitthvert smágutl í suðurkatlinum, kannski 10 rúmmetrar á sekúndu, þannig að gosið er að fjara út hægt og rólega,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um stöðuna á eldgosinu sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni á laugardagskvöld.

Ármann segir gosin fjögur á síðustu þremur mánuðum öll af svipuðum meiði og að rekja megi þau til jarðhræringanna 10.-11. nóvember 2023. „Þessi atburðarás byrjar á því að jaðarinn á flekamótunum slitnar í nóvember og smám saman fer kvika að flæða inn í lítinn laggang undir Svartsengi. Þegar þrýstingurinn var orðinn nægur þar gat hann lyft blokkinni upp, sem losnaði í nóvember í jarðskjálftahrinunum, og kvikan skaust út, upp um þessa þekktu gossprungu,“ segir Ármann og bætir við að það muni endurtaka sig á meðan enn flæði inn í Svartsengi.

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands,
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands,

„En um leið og Eldvörpin ná að rifna geri ég ráð fyrir að eldvirknin færist þangað og þá verður auðveldara fyrir kvikuna að koma upp þar.“

Vísbendingar séu um auknar sprungur úti við Brynketil. Gögn sem Veðurstofan hefur birt sýni þá einnig að áhrifanna gæti sífellt meira til vesturs, en takmarkist meira til austurs, en þar er það aðalsprungan á flekamótunum sem liggur um Sundhnúkagígaröðina.

Þegar það gerist segir Ármann að gosin geti varað lengur en síðustu fjögur gos, að gosinu núna meðtöldu. „Eldvirkninni á Sundhnúkasprungunni er algjörlega stjórnað af laggangssyllunni á flekamótunum undir Svartsengi, en þegar rifnar í Eldvörpum getur kvikan komið dýpra að og þá er milliliðurinn horfinn, sem Svartsengisinnskotið er.“ Hann segir að þegar það gerist geti Grindvíkingar andað rólegar, en þó séu Njarðvíkuræðin og háspennulínur þeir innviðir sem enn væru í hættu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert