„Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýleg endurskoðun Hagstofunnar á þjóðhagsreikningum, þar sem fram kom að hagvöxtur síðustu ára var umtalsvert meiri en fyrri tölur bentu til, virðist hafa haft nokkur áhrif á ákvarðanatöku peningastefnunefndar Seðlabankans sem í dag ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum. Höfðu margir vonast eftir lækkun, sérstaklega í ljósi þess að fyrstu kjarasamningar í nýrri lotu höfðu nýlega verið undirritaðir.

Á kynningarfundi nefndarinnar í morgun var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri meðal annars spurður hvort rétt væri að túlka orð nefndarinnar á þann hátt að endurskoðaðar tölur í fortíðinni væru að gefa vísbendingu um spennustig núna og inn í framtíðina.

Var þar vísað til þessara orða í yfirlýsingu nefndarinnar: „Nýleg endurskoðun Hagstofu Íslands á þjóðhagsreikningum sýnir að hagvöxtur á síðustu árum var meiri en fyrri tölur bentu til. Spennan í þjóðarbúinu virðist því vera umfram það sem áður var talið. Áfram hægir þó á vexti efnahagsumsvifa enda er taumhald peningastefnunnar töluvert.

„20% hagvöxtur á þremur árum, hafið þið heyrt það áður?“

Ásgeir svaraði því til að um ansi mikla breytingu væri að ræða í tölum Hagstofunnar. „Núna vitum við að íslenska hagkerfið óx um 20% á þremur árum, 2021, 2022 og 2023 og þar með talinn 9% vöxtur árið 2022. Kannski setur í samhengi hvaða verkefni peningastefnan hefur verið að eiga við. Mér dettur ekki í hug neitt annað vestrænt hagkerfi sem hefur vaxið með þessum hraða,“ sagði hann.

Sagði Ásgeir að mikil þensla hafi verið í efnahagslífinu og til að ná verðbólgunni niður, sem nú stendur í 6,6% þurfi að kæla niður kerfið og ná slaka á það. „Þetta sýnir fram á hvað það verkefni er í rauninni erfitt og erfiðara en við höfðum gert okkur grein fyrir,“ sagði Ásgeir um háar hagvaxtartölur. Bætti hann við: „20% hagvöxtur á þremur árum, hafið þið heyrt það áður?“

Ásgeir tók þó fram að þó að þessar tölur hefðu komið til skoðunar þá horfði nefndin einnig fram í tímann við ákvarðanatöku sína.

Verðbólgan enn 6,6%

Seðlabankastjóri vísaði svo til þess að hagvöxturinn undanfarið hefði ekki verið útlánavöxtur og ekki rekinn áfram af lántöku eða fjármagnsþenslu, heldur væri viðskiptaafgangur. Því blasi við að ná þurfi verðbólgunni niður. „Hún er enn 6,6%, það er allt of hátt. Síðast þegar ég vissi þá er verðbólgumarkmið okkar 2,5% og við erum aðeins frá því.“

Áhrif endurskoðunar líkleg til að færast til þessa árs

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, benti þá á að árið 2022 hefði verið endurskoðað upp um tæplega 2 prósentustig, en samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar er nú áætlað að hagvöxtur hafi verið 8,9% það ár, en ekki 7,2% eins og áður var talið. Þá hafi fyrstu níu mánuðir síðasta ár einnig verið færðir upp og taldi hún í ljósi reynslunnar sterkar líkur á að þegar síðasti ársfjórðungur verði endurskoðaður muni þær tölur einnig hækka.

Rannveig segir fjárfestingu helst fóðra þessa endurskoðun og það þýði líka að framleiðslugetan sé að aukast meira en talið var. Því sé líklegt að aukin spenna í lok síðasta árs smitist einnig yfir til þessa árs. Hún sagði einnig spennuna á vinnumarkaði enn vera mikla og þó vísbendingar væru um að hún væri að tikka niður, þá væru sumar þessara vísbendinga varla merkjanlegar.

Hún rifjaði jafnframt upp reynslu af síðustu kjarasamningum þegar hækkun launa skilaði sér út í verðlag og ýtti verðbólgu upp í 10%. Sagði hún að Seðlabankinn vildi ekki sjá launahækkun núna fara beint út í verðbólguna.

„Það er að vaxa hratt og það er kraftur í …
„Það er að vaxa hratt og það er kraftur í því. Þetta er eitthvað sem aðrar þjóðir gætu alveg öfundað okkur af,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri um stöðu hagkerfisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eitthvað sem aðrar þjóðir gætu alveg öfundað okkur af“

Ásgeir kom því næst inn á ekki sé bæði hægt að fá og hafna á sama tíma. „Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana. Getum ekki haft 20% hagvöxt og gríðarlega mikla þenslu á öllum sviðum án þess að það komi fram í verðbólgu og þá að við hækkum stýrivexti til að bregðast við því,“ sagði hann.

Þrátt fyrir ýmiss áföll fyrir hagkerfið nýlega eins og tjón Grindvíkinga af eldsumbrotum á Reykjanesskaga sagði Ásgeir margt annað jákvætt í gangi í hagkerfinu. „Það er að vaxa hratt og það er kraftur í því. Þetta er eitthvað sem aðrar þjóðir gætu alveg öfundað okkur af.“ Nefndi hann að í Evrópu sé víða samdráttur og lífskjör fólks að lækka vegna þess. „Við erum með þennan gríðarlega kraft í kerfinu og það gerir verkefni peningastefnunnar miklu erfiðara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert