Segir vanhæfi sitt ekki hafa komið til skoðunar

Þórdís Kolbrún segir að vanhæfisreglur hafi ekki komið til skoðunar …
Þórdís Kolbrún segir að vanhæfisreglur hafi ekki komið til skoðunar af hennar hálfu í málinu. Samsett mynd/Eggert/Hari

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að vanhæfisreglur hafi ekki komið til skoðunar af hennar hálfu í sambandi við fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM.

Þá segir hún ótímabært að segja til um hvort að hægt sé að koma í veg fyrir fyrirhuguð kaup.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, bróðir Þórdísar, er stjórnarmaður í tryggingafyrirtækinu VÍS, sem er einn af samkeppnisaðilum TM. Þar að auki er Ásgeir forstjóri SKEL fjárfestingafélags hf., sem er næststærsti hluthafinn í VÍS með 8,23% hlut.

Í ljósi þess að bróðir þinn er stjórnarmaður í VÍS og stjórnandi eins stærsta hluthafans í VÍS – Skel – hefur þá komið til skoðunar vanhæfisreglur af þinni hálfu?

„Ég gæti að hæfi mínu sem ráðherra við stjórnvaldsákvarðanir eins og reglur kveða á um, engar slíkar ákvarðanir [hafa] verið teknar vegna málsins,“ segir Þórdís í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Ótímabært að tjá sig

Kvöldið sem Kvika tilkynnti að bankinn hefði samþykkti skuldbindandi tilboð Landsbankans í TM þá birti Þórdís færslu á Facebook þar sem hún sagði að kaupin yrðu ekki að veruleika á sinni vakt.

„Þessi viðskipti verða ekki að veruleika með mínu samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða,“ skrifaði Þórdís á Facebook.

Spurð nú hvort hægt sé að koma í veg fyrir kaup Landsbankans á TM segir Þórdís ekki tímabært að tjá sig um það.

„Það er ekki tímabært að tjá sig um það. Bankasýslan er með málið hjá sér eftir svör og greinargerð bankaráðs Landsbankans og hefur upplýst mig um þá vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert