Landsbankinn kaupir TM

Kvika banki hefur samþykkt tilboð Landsabankans.
Kvika banki hefur samþykkt tilboð Landsabankans. Samsett mynd

Stjórn Kviku banka hefur ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á hlutafé TM trygginga hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku.

„Eftir að hafa metið tilboðin með ráðgjöfum sínum hefur stjórn Kviku ákveðið að taka tilboði Landsbankans hf. með það að markmiði að ljúka endanlegri áreiðanleikakönnun og undirrita kaupsamning milli bankanna um kaup og sölu 100% hlutafjár TM eins fljótt og auðið er, með hefðbundnum fyrirvörum, s.s. samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins, “ segir í tilkynningunni.

Kaupverðið 28,6 milljarðar

Fram kemur að kaupverð samkvæmt tilboðinu sé 28,6 milljarðar króna og muni Landsbankinn greiða fyrir hlutaféð með reiðufé.

„Kaupverðið miðast við efnahagsreikning TM í lok árs 2023. Endanlegt kaupverð verður aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 til afhendingardags en fjárhæð breytingarinnar mun bætast við eða dragast frá kaupverðinu í tilboðinu. Samkvæmt rekstrarspá TM er gert ráð fyrir að hagnaður TM verði rúmlega 3 milljarðar króna á rekstrarárinu 2024. Eignarhlutur Kviku í TM í lok árs 2023 var bókfærður á samtals 26,8 milljarða króna,“ segir í tilkynningunni.

Verði til hagsbóta fyrir alla

Haft er eftir forstjóra Kviku að ef kaupsamningur verði undirritaður verði það til hagsbóta fyrir alla aðila, Kviku, Landsbankann og TM, viðskiptavini þeirra, hluthafa og aðra hagaðila. 

„Við erum mjög ánægð með að söluferli Kviku á TM sé nú komið á þann stað að hægt sé að ganga að kauptilboði Landsbankans með það að markmiði að ljúka sölunni. Ef ferlið leiðir til undirritunar kaupsamnings verður það til hagsbóta fyrir alla aðila, Kviku, Landsbankann og TM, viðskiptavini þeirra, hluthafa og aðra hagaðila.

Ég hef fulla trú á því að TM, sem er vel rekið og verðmætt tryggingafélag með öflugan mannauð, muni áfram veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu og vaxa enn frekar með nýju eignarhaldi,“ er haft eftir Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku, í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningunni að nánar verði upplýst um framvindu ferlisins, eða um leið og ástæða sé til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu bankans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK