c

Pistlar:

7. maí 2024 kl. 20:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sprengju-kveikur í Kastljósinu

Áhorfendur Ríkisútvarpsins hafa nú séð umfjöllun um viðskipti Reykjavíkurborgar við olíufélögin vegna lóðarmála. Viðskipti sem kalla má „gjafagjörning.“ Eins kunnugt er þá var þátturinn tekinn af dagskrá fréttaskýringaþáttarins Kveiks, en undir þeim formerkjum birtir fréttastofa Ríkisútvarpsins rannsóknarblaðamennsku sína.

Mikla athygli vakti þegar ritstjóri Kveiks, Ingólfur Bjarni Sigfússon, ákvað að taka þáttinn af dagskrá með þeim orðum að þátturinn uppfyllti ekki gæðakröfur Kveiks. Um leið virtist hann telja að María Sigrún Hilmarsdóttir ætti ekki heima í teymi rannsóknarblaðamanna Kveiks, sagði hæfileika hennar ekki vera á sviði rannsóknarblaðamennsku heldur frekar við að lesa fréttir. Ummæli sem hafa vakið talsverða athygli enda þykir mörgum þar grilla í ákveðna tegund karlrembu. Nú þegar búið er að sýna þáttinn bíða margir spenntir eftir því að Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks, útskýri hvað það var í vinnubrögðum Maríu Sigrúnar sem ekki stóðst hinar stífu gæðakröfur hans.kveikur

Í fréttaskýringarþættinum kemur fram að meirihlutinn í Reykjavík, undir forystu Dags B. Eggertssonar, hélt illa á hagsmunum borgarbúa þegar ákveðið var að breyta nýtingarrétti 12 bensínstöðvalóða í Reykjavík til að þar mætti rísa íbúðabyggð. Það sjá allir að við þá ákvörðun að breyta nýtingarétti lóðanna skapast um leið mikil verðmæti sem virðast renna að nær öllu leyti til lóðarhafa. Skiptir þá engu að lóðaleigusamningar hafi í sumum tilvikum verið útrunnir eða nærri því. Reykjavíkurborg var því í lófa lagið að leysa til sín þær lóðir og selja þær hæstbjóðanda í opnu gagnsæu ferli.

Breytingar á nýtingarrétti lóða hafa verið í gangi í Reykjavík um langt skeið undir formerkjum þéttingar byggðar. Engum dylst að margir lóðareigendur hafa hagnast á þessum breytingum. Líklega hefur það þó ekki áður birst með jafn skýrum hætti að borgarstjórnarmeirihluti Dags var ekki að gæta hagsmuna borgarbúa eins og í þessu máli. Reyndar afhjúpar þátturinn vandræðagang borgarstjóra sem reyndir að villa um með óljósu orðalagi í samtali því sem er hér mynd af úr þættinum. Ég fæ ekki betur séð en að hann sé þarna hreinlega staðinn að því að fara með staðlausa stafi. Athugasemd frá almannatengslateymi borgarinnar sem birtist í morgun er í þessum anda og hefur verið hrakin í svörum Maríu Sigrúnar og stjórnenda Kastljóssins.kveikur

Hver stöðvaði fréttina?

Hver verða eftirmálin? Margir eru undrandi og bíða eftir frekari rannsókn fjölmiðla. Við sjáum að með þessari uppákomu, sem varð í fyrir sýningu þessa þáttar, að fréttastofu Ríkisútvarpsins er illa treystandi til að fylgja þessu máli eftir. Ekki verður annað séð en að Dagur hafi náð að beita afli sínu til að taka fréttina úr umferð. Vafalaust naut hann þar tengsla sinna við yfirstjórn Ríkisútvarpsins. María Sigrún á heiður skilinn fyrir að vekja athygli á þessari tilraun til þöggunar, og náði með harðfylgi að halda sínu og sjá til þess að fréttaskýringaþátturinn yrði sýndur.

En hvað með aðra fjölmiðla? Munu þeir fylgja þessu máli eftir. Boltinn er nú hjá þeim. Skemmst er að minnast að hinn þaulreyndi blaðamaður Vísis, Jakob Bjarnar Grétarsson, hóf málið með því að segja frá þögguninni á fréttinni. Nú, reynir á fréttamat og afl annarra miðla. Eða þykir þeim þetta kannski ekki frétt? Ef svo er þá er það á skjön við viðbrögð almennings og reyndar orðræðu á samfélagsmiðlum, bæði hjá lærðum sem leiknum.

Það vakti athygli pistlaskrifara að í vikulegu spjalli Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra, Heimildarinnar, á Rás eitt í morgun var ekki vikið orði að þessu máli og það þótt öll umræðan væri helguð fjármálum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Augljóslega taldist Kastljósumfjöllunin ekki fréttnæm í huga ritstjóra Heimildarinnar, sem vel að merkja er einmitt í miklu persónulegu vinfengi við ritstjórn Kveiks, í nútíð og fortíð. „Hvers vegna í ósköpunum var þessum fréttaskýringarþætti ekki tekið fagnandi? Og enn þarf að spyrja hvernig á því standi að ritstjórn Kveiks hafi ekki fyrir löngu síðan tekið þetta furðulega hneykslismál til umfjöllunar. Er til of mikils ætlast að ritstjórn Kveiks svari þessu opinberlega,“ spyr Ögmundur Jónasson, fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu í pistli. Ögmundur hefur fjallað mikið um málið og gagnrýnt yfirstjórn Ríkisútvarpsins harðlega.maria

Valkvætt fréttamat

Þetta þöggunarmál varpar kastljósinu á rannsóknarfréttamennsku Ríkisútvarpsins. Margir hafa hampað stofnuninni fyrir þessa stefnu enda hefur hún staðið að mörgum stórum fréttamálum. En er fréttamatið þar á bæ valkvætt? Hefur flokkapólitík áhrif á fréttamatið ríkisstofnunarinnar? Borgarstjóri er fyrirferðamikill í stjórnmálum og honum er ætlað stórt hlutverk í Samfylkingunni, er hugsanlega ráðherraefni. Ef grannt er skorað er þetta síður en svo í fyrsta sinn sem hann er tengdur umdeildum ákvörðunum í lóðarmálum. Má þar sem dæmi nefna að bæði Baltasar Kormákur og Runólfur Ágústsson hafa ekki verið látnir gjalda vinskapar við borgarstjórann og urðu umsvifamiklir lóðarhafar í Reykjavík. Smáfréttir hafa verið sagðar af því hér og þar en þeir hrista þær vandlega af sér af því að rannsóknarblaðamenn, meðal annars þeir hjá opinberu stofnuninni, hafa ekki áhuga á málinu.

Þetta þöggunarmál sýnir að rannsóknarblaðamennska Ríkisútvarpsins lýtur engri stefnumörkun eða stjórnsýslu. Fréttamatið eða stefnan er í höndum þeirra sem taka sér það vald hverju sinni, hvort sem þeir heita Ingólfur Bjarni Sigfússon, Helgi Seljan eða Jóhannes Kr. Kristjánsson. Þannig hefur Ríkisútvarpið efnt til samstarfs við fjölmiðla innanlands sem erlendis án þess að um það ríki stefna eða ákvörðun af yfirstjórn. Rannsóknarblaðamennirnir gera bara það sem þeim sýnist eins og gerðist í Panamamálinu þegar Ríkissjónvarpinu var stýrt inn í umfjöllun sem tekin var ákvörðun um erlendis. Þá var ákvörðunin um að veitast að forsætisráðherra Íslands í fréttinni var tekin á sameiginlegum ritstjórnarfundi erlendis þegar verið var að stilla upp umfjölluninni um Panama-skjölin til að sem mest athygli fengist. Um það var almenningur ekki upplýstur fyrr en síðar þegar blaðamennirnir sjálfir í hégómleika sínum gerðu heimildarþátt um „hetjulega framgöngu sína“ í málinu og afhjúpuðu þá um leið sjálfa sig.

Eins og áður sagði á María Sigrún heiður skilið fyrir að láta ekki stöðva frétt sína og opinbera málið á Facebook-síðu sinni. Allir vita að það að slíkt framferði er alvarleg atlaga að ritstjórnarlegu frelsi blaðamanna. Breytir litlu að þeir háværustu í þeirra stétt séu furðu fámálir núna. Framhald málsins er prófsteinn á hvar trúnaður blaðamanna liggur, við almenning eða við stéttina?