Skagi kaupir Íslensk verðbréf

Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.
Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.

Skagi, sem er móðurfélag VÍS og Fossa, hefur undirritað kaupsamning við hluthafa Íslenskra verðbréfa (ÍV) um kaup Skaga á 97,07% hlutafjár í félaginu fyrir tæpa 1,6 milljarða króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar í kvöld kemur fram að horft verði til þess að í kjölfarið verði farið í kaup hlutafjár annarra hluthafa þannig að Skagi verði einn eigandi alls hlutafjár í ÍV. Þá kemur fram að Jóhann M. Ólafsson, forstjóri ÍV, hefur stigið til hliðar og Jón Helgi Pétursson, framkvæmdastjóri ÍV sjóða, hefur tekið tímabundið við sem forstjóri félagsins.

Gert er ráð fyrir að kaupverðið verði greitt með reiðufé, en Skagi hefur val um að greiða allt að fjórðungi kaupverðsins með afhendingu nýs hlutafjár í Skaga. ÍV var með 96 milljarða króna í stýringu um síðustu áramót. Alls voru um 4.000 viðskiptavinir með fjármuni í eignastýringu og vörslu hjá félaginu í lok árs 2023. ÍV hafa frá stofnun verið með höfuðstöðvar sínar á Akureyri og horft er til þess að starfsemi félagsins verði þar áfram, enda er markmið samstæðu Skaga að efla þjónustu við viðskiptavini á Norðurlandi.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins.

„Þessi viðbót mun efla þjónustu við viðskiptavini okkar á Norðurlandi og styrkir stöðu okkar á sviðum eignastýringar og markaðsviðskipta. Samstæða Skaga er nú þegar með öflugan rekstur á svæðinu en kaupin eru mikilvægt skref í frekari uppbyggingu fyrir norðan. Íslensk verðbréf hafa í hátt í fjóra áratugi boðið upp á framúrskarandi þjónustu á sviði eignastýringar og mun halda því áfram innan samstæðu Skaga,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, í tilkynningunni. Hann segir jafnframt að eignir í stýringu hjá Skaga muni nema um 220 milljörðum króna eftir viðskiptin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK