Vilja selja fyrir tæpa 13 milljarða í Íslandshótelum

Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.
Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela. Ljósmynd/Aðsend

Íslandshótel birtu í dag útboðslýsingu vegna fyrirhugaðrar skráningar á aðalmarkað Nasdaq Iceland en almennt útboð á hlutabréfum félagsins hefst kl. 10 í fyrramálið og lýkur miðvikudaginn 22. maí kl. 16.

Í tilkynningu frá Íslandshótelum segir að til sölu verði 257.209.972 hlutir, eða sem samsvara 41,7% af útgefnu hlutafé Íslandshótela hf. Andvirði útboðsins er því 12,9 milljarðar.

Í boði eru tvær tilboðsbækur sem eru ólíkar er varðar stærð áskrifta, verðlagningu og úthlutunarreglur. Tilboðsbók A fyrir áskriftir frá 100 þúsund krónum til 20 milljóna króna og tilboðsbók B fyrir áskriftir yfir 20 milljónir króna.

Höfum fundið fyrir miklum áhuga

„Það er okkur mikið ánægjuefni að taka þetta skref í dag og við höfum fundið fyrir miklum áhuga á skráningu Íslandshótela á markað frá því að undirbúningur hófst. Við erum stærsta hótelkeðja landsins sem rekur 18 hótel hringinn í kringum Ísland, í sterkustu útflutningsgrein Íslands og í raun getum við sagt að við séum jafnframt fasteignafélag, enda eigum við 16 af 18 hótelfasteignum,“ er haft eftir Davíð Torfa Ólafssyni, forstjóra Íslandshótela, i tilkynningunni.

Uppgjör fyrsta ársfjórðungs hefur verið birt og er það í samræmi við áætlanir félagsins. 21% tekjuvöxtur var á tímabilinu en velta félagsins á á fyrsta ársfjórðungi 2024 var 2,97 milljarðar króna samanborið við 2,45 milljarða króna fyrir sama tímabil 2023. Þá var EBITDA 202,7 milljónir króna samanborið við 47 milljónir króna fyrir sama tímabil 2023, en það er í takt við áætlun félagsins og í samræmi við hefðbundna árstíðarsveiflu greinarinnar.

Horfum björtum augum til framtíðarinnar

„Rekstur félagsins er góður eins og uppgjör fyrsta ársfjórðungs sýnir. Framundan eru sterkustu mánuðirnir í ferðaþjónustunni og við munum sjá ferðamönnum fjölga nú þegar sumarið nálgast.  Útlitið er gott í þessari sívaxandi atvinnugrein og við horfum því björtum augum til framtíðarinnar,“ segir Davíð Torfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK