c

Pistlar:

22. maí 2024 kl. 20:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Met í hælisumsóknum í Evrópu

Nýjar tölur frá Hagstofu Evrópu, Eurostat, sýna að ekkert lát er á innflæði flóttafólks í álfuna. Í febrúar 2024 sóttu 75.445 umsækjendur um fyrsta sinn um hæli (ríkisborgarar utan ESB) og hafa ekki verið fleiri í febrúar áður. Viðkomandi flóttamenn eru þá að sækja um alþjóðlega vernd í ESB-löndum. Það er aukning um 2% miðað við febrúar 2023 (74.295). Hafa má í huga að Bretland er ekki inni í þessum tölum en þangað leituðu ríflega 67.000 hælisleitendur á síðasta ári.flotta

Það voru líka um 7.000 umsækjendur að sækja um á ný (höfðu verið skráðir áður sem umsækjendur), sem er 7% aukning miðað við febrúar 2023. Þessar upplýsingar koma úr mánaðarlegum gögnum um hælisleitendur sem Eurostat birtir í dag. Samantekt Eurostat kynnir margvíslegar niðurstöður úr ítarlegri greiningu en 43 milljónir manna innan Evrópusambandslandanna eru fæddir utan þeirra eða um 9% af heildarfjöldanum. Dreifing flóttafólks er mjög ólík þar sem flest ríki Austur-Evrópu taka ekki við flóttamönnum utan Evrópu en flóttamenn frá Úkraínu eru hins vegar mjög margir í þessum löndum. Fyrir Úkraínu-stríðið var aðeins 10% flóttamanna heimsins í Evrópu en nú er þetta hlutfall komið í 20%.

Sýrlendingar fjölmennastir

Í febrúar 2024 voru Sýrlendingar áfram stærsti hópur fólks sem leitaði hælis (10.465 umsækjendur í fyrsta skipti). Á eftir þeim komu Afganar (6.950) og Venesúelabúar (5.800).
Sem fyr er það Þýskaland (19.490) sem tekur á móti flestum hælisleitendum. Spánn (13.600) er þar á eftir og svo Ítalía (13.345) og Frakkland (10.205) og halda þessi lönd áfram að taka á móti flestum umsækjendum um fyrsta sinn um hæli en þangað fara 75% allra fyrstu umsækjenda í ESB.hæli

Í febrúar 2024 var heildarfjöldi umsækjenda um fyrsta hæli í ESB 16,8 á hverja hundrað þúsund manns. Í samanburði við íbúa hvers ESB-lands (1. janúar 2023) var hæsta hlutfall umsækjenda í fyrsta skipti á Kýpur (87,1) og Grikklandi (52,5).

Í febrúar 2024 sóttu 2.555 fylgdarlaus börn um hæli í fyrsta sinn í ESB, flestir komu frá Sýrlandi (710), Afganistan (470), Egyptalandi (145), Sómalíu (135) og Gíneu (110). Þau ESB-lönd sem fengu flestar hælisumsóknir frá fylgdarlausum börnum voru Þýskaland (1.025), Holland (385), Spánn (240), Grikkland (215) og Ítalía (190).

Stefnubreyting víða

Það er ekkert leyndarmál að mikil óeining er innan Evrópusambandsins um stefnu í innflytjendamálum og málefnum flóttafólks eins og áður hefur verið vikið að hér í pistlum. Þannig hafa Finnar nú tilkynnt verulega breytingu á landamæravörslu sinni en þeir hafa brugðið á það ráð að loka landamærum að Rússlandi. Var það gert í kjölfar þess að Rússar beindu straumi innflytjenda inn til Finnlands, bragð sem Rússar hafa beitt áður, sem og fleiri. Finnar hafa boðað breytingu á innflytjendalöggjöf sinni sem gerir þeim meðal annars heimilt að hætt að taka við fólki sem sækir um alþjóðlega vernd. Einnig yrði gert auðveldara að vísa fólki úr landi. Finnar segja hverju landi nauðsynlegt að ráða eigin landamærastefnu. Klofningurinn í Evrópu um stefnu í þessum málaflokki staðfestist þarna enn betur.