c

Pistlar:

5. september 2021 kl. 21:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flóttamenn sem vopn

Undanfarnar vikur hefur ríkt neyðarástandi við landamæri Lettlands og Hvíta-Rússlandi vegna fjölda flóttamanna frá Mið-Austurlöndum sem hafa komið yfir landamærin. Með því að lýsa yfir neyðarástandi heimiluðu lettnesk yfirvöld lögreglu og landamæravörðum að beita valdi, ef þörf krefur, til að snúa flóttamönnum við á landamærunum. Auk þess hefur þessi yfirlýsing þau áhrif að þeim er ekki skylt að taka við umsóknum um alþjóðlega vernd.

Þetta gerist í kjölfar aukinnar ásóknar flóttafólks yfir landamæri Hvíta-Rússlands til Lettlands, Litháen og Póllands. Öll ríkin eru í Evrópusambandinu og hafa þau sakað Alexander Lúkasjenko, forseta Hvíta-Rússlands, um að beina flóttamönnum að landamærum nágrannaríkjanna í hefndarskyni. Haft hefur verið eftir hinum hvatvísa Lúkasjenko að Hvít-Rússar undirbúi „hefndir“ vegna refsiaðgerða Vesturlanda en hann hefur verið í skotlínunni heimafyrir vegna harðæðis gagnvart mótmælendum. Eystrasaltslöndin hafa skotið skjólshúsi yfir marga úr röðum stjórnarandstæðinga. Augljóslega er Lúkasjenko að nýta sér flóttamenn sem vopn, með því að beina þeim yfir til nágranaríkja vill hann auka á vanda þeirra. Það hefur tekist en 55 sinnum fleiri flóttamenn fara þarna á milli en á síðasta ári. Hvít-Rússar hafa leyft lendingu flugvéla með flóttamenn og vísað þeim svo beint að landamærunum.flótt

Fréttastofan Al Jazeera sagði nýlega frá Mohammad Elias Safi, 47 ára gömlum Afgana sem hafði greitt sem svarar 15 þúsund Bandaríkjadölum fyrir það sem átti að vera örugg ferð yfir til Eystrasaltsríkjanna. Hann er nú einn 4.000 flóttamanna sem hírast í búðum við landamæri Litháens og Hvíta-Rússlands en stærsti hluti þeirra kemur frá Írak og öðrum múslimaríkjum en mikil andstaða er meðal almennings í Eystrasaltslöndum að taka við fólki þaðan. Síðan 20 ágúst hafa litháísk yfirvöld skráð 1.600 hælisleitendur en segja að aðeins brot þeirra fái hæli. Reynt er að fá suma til að snúa til baka gegn greiðslu en það fær ekki góðar viðtökur enda ekki boðnar nema 300 dalir.

Tyrkir léku sama leik

Þegar flóttamannastraumurinn hófst frá Sýrlandi bitnaði hann eðlilega að langmestu leyti á nágranaríkjunum en milljónir Sýrlendinga og Íraka voru þá á vergangi. Tyrkir lentu þá í sérstakri samningsstöðu gagnvart leiðtogum Evrópusambandsríkjanna. Fljótlega sáu þeir að það yrði að reyna að borga Tyrkjum fyrir að reyna að þjónusta flóttamenn heima hjá sér og styrktu Tyrki strax um þrjá milljarða evra árið 2015. Um leið var opnaður nýr kafli í sögunni endalausu um aðilaviðræður Tyrkja að ESB. Í staðinn fór Evrópusambandi fram á að tyrknesk yfirvöld kæmu í veg fyrir að hælisleitendur, sem ekki eru á flótta undan stríðsástandi og eiga því ekki rétt á hæli í Evrópu, geti ferðast í gegnum Tyrkland. Síðan hefur ESB orðið að greiða reglulega framlög til Tyrkja sem hafa alltaf verið tilbúnir að hóta því að láta flóttamenn flæða yfir Evrópu.

Og einnig Marokkómenn

Um langt skeið hafa flóttamenn streymt upp til Spánar frá Afríku, oftast í gegnum Marokkó. Uppúr sauð í vor þegar Marokkómenn leyfðu þúsundum farand- og flóttamanna að fara til Ceuta og Melilla, tveggja yfirráðasvæða Spánar í Norður-Afríku. Augljóslega voru yfirvöld í Marokkó að reyna að refsa Spánverjum fyrir að taka á móti Brahim Ghali sem hefur leitt sjálfstæðishreyfingu í vesturhluta Marokkó og var vistaður á sjúkrahúsi á Spáni skömmu áður við mikil mótmæli yfirvalda í Marokkó. Forystumenn Evrópusambandsins reyndu að senda yfirvöldum í Marokkó skilaboð um að slakt landamæraeftirlit þar gæti orðið til þess að dregið yrði úr fjárhagsaðstoð sambandsins. Ráðamenn í Marokkó hafi heitið því að draga úr flæði flótta- og farandfólks en augljóslega víla þeir ekki fyrir sér að beita þeim sem vopnum.

Beitt gegn efnuðum þjóðum

Staðreyndin er sú að víða eru stjórnvöld tilbúin að beita þessu ógeðfelda vopni. Þá helst gegn efnuðum þjóðum sem eru þannig þvinguð til að greiða til að drukkna ekki í flóttamannastraumi. Sum ríki Austur-Evrópu hafa brugðið á það ráð að verja landamæri sín af mikilli hörku, nokkuð sem Evrópusambandið hefur neyðst til að horfa framhjá. Framundan er ný glíma þegar flóttamenn frá Afganistan byrja að streyma vestur á bóginn. Sjálfsagt hyggjast Tyrkir nýta sér það í eilífum skærum sínum við Evrópusambandsríkin.

Á sínum tíma hótaði Muammar Gaddafi, þáverandi leiðtogi Libíu því að láta flóttamenn flæða yfir Evrópu ef afskiptum af innanríkismálum þar yrði ekki hætt. En er stutt í að leiðtogar við sunnanvert Miðjarðarhafi beiti slíkum hótunum.