Ráðist á 11 ára barn: Fjórða atvikið á skömmum tíma

Árásin átti sér stað skammt frá Víðistaðaskóla í morgun.
Árásin átti sér stað skammt frá Víðistaðaskóla í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður réðst á unga stúlku við Víðistaðaskóla snemma í morgun. Greip maðurinn fyrir munn stúlkunnar og tók hana hálstaki. Faðir stúlkunnar biðlar til foreldra að brýna fyrir börnum sínum að hafa varann á.

Í samtali við mbl.is staðfestir Skúli Jóns­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, að málið sé á borði lögreglu og segir það fjórða atvikið af slíkum toga á fjórum vikum.

Sterk viðbrögð hjá stúlkunni

Hann segir viðbrögð stúlkunnar, sem er tæplega tólf ára, hafa verið afar sterk en að sögn föður hennar komst hún undan með því að gefa manninum olnbogaskot, sparka í hann og bíta í hendi hans. 

„Þetta er náttúrulega mjög alvarlegt eins og þessu er lýst og við leggjum mikla áherslu að hafa upp á þessum manni,“ segir Skúli.

Segir Skúli lögreglu ekki vita hver maðurinn sé eða hvort um sama aðila hafi verið að ræða í öll skiptin. Börnin fjögur séu aftur á móti öll á svipuðum aldri og ekki hafi verið langt á milli þeirra staða sem atvikin fjögur áttu sér stað á. 

Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geta ekki hengt sig á appelsínugula jakkann

Aðspurður segir hann engin vitni að atvikunum hafa gefið sig fram enn sem komið er né hafi atvikið í morgun náðst á myndavélar Víðistaðaskóla, en árásin hafi átt sér stað nokkrum metrum utan sjónarsviðs myndavéla skólans að sögn föður stúlkunnar.

Ein mynd hafi náðst úr fjarska af fyrra atviki og sést þar að árásarmaðurinn var klæddur í appelsínugula yfirhöfn. Þrjú barnanna hafi sagt árásarmanninn hafa verið klæddan í appelsínugult en árásarmaður stúlkunnar í dag hafi verið svartklæddur að hennar sögn.

„Þannig við getum ekki hengt okkur á það algerlega,“ segir Skúli.

Blaðamaður ræddi einnig við föður stúlkunnar, Helga Ingason, sem segir stúlkuna hafa verið í miklu uppnámi í kjölfar atviksins. Hún hafi hlaupið í skólann er hún kom sér undan og setið fyrsta tíma dagsins. Hún hafi aftur á móti leitað til móður sinnar og greint henni frá atvikinu eftir tímann.

Lyfti stúlkunni upp á hálsinum

Kveðst Helgi hafa sótt dótturina og farið og talað við lögregluna og skólann og síðar farið með hana til læknisskoðunar þar sem hún hafi kvartað undan eymslum í hálsi í kjölfar árásarinnar. 

„Að því þegar hann grípur hana þá lyftir hann henni upp á hálsinum,“ segir Helgi en stúlkan hlaut ekki alvarlega áverka af.

Maðurinn hafi að sögn stúlkunnar byrjað að blóta á erlendri tungu er hún barðist á móti en ekki á tungumáli sem hún þekkti. Hún hafi ekki getað sagt hvaða tungumáli en gat þó útilokað ensku, pólsku og dönsku, sem hún þekki af heyrn.

Segir Helgi atvikið hafa átt sér stað aðeins örfáum metrum frá skólanum þar sem nokkrir göngustígar mætast hjá sparkvellinum við Víðistaðaskóla.

Mikilvægt að ræða við börnin

Hann segir stúlkuna upphaflega hafa verið í miklu uppnámi en að hún sé nú orðin rólegri. Hann og móðir hennar hafi átt samtöl við hana um hættur sem þessar og telur Helgi það hafa átt þátt í því hversu skjótt og vel stúlkan brást við. 

„Það er náttúrulega þessi maður hér sem er búin að vera að áreita börn hér í Hafnarfirði og það var búið að minnast á þetta við hana,“ segir Helgi en kveðst þó ekki geta sagt til um hvort um sama mann sé að ræða. 

„En þetta er ein ástæðan fyrir því að hún fraus ekki, held ég, og fór í stað strax að berjast á móti,“ segir Helgi.

„Ég brýni bara fyrir foreldrum að ræða þessi mál við börnin sín.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert