Lét gervigreind búa til uppskrift að kaffi

Nú er hægt að láta gervigreind búa til uppskriftir að …
Nú er hægt að láta gervigreind búa til uppskriftir að kaffi. Ljósmynd/Colourbox

Íslenska tæknifyrirtækið AIViking live hyggst innan fárra vikna byrja að bjóða Íslendingum upp á kaffi samkvæmt uppskrift sem gervigreind hefur búið til.

Jón Eggert Guðmundsson, framkvæmdstjóri og eigandi fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að uppskriftin að kaffinu, sem ber heitið Arctic Harmony, sé unnin upp úr íslenskum kaffigagnagrunnum, einkum gögnum Hagstofunnar. Kaffið eigi þannig að vera drykkur sem ætti að falla flestum Íslendingum í geð og verði þannig lagaður að smekk Íslendinga. Jón kveðst nota Azure-skýjaþjónustu Microsoft við úrvinnslu gagnanna og gervigreindarforritið Chat GPT.

Gæti leitað út

Kaffibaunirnar í uppskriftinni eru sérvaldar frá Kólumbíu og Eþíópíu. Kólumbísku baunirnar veita að sögn Jóns djúpt og ríkt bragð með hnetu-undirtónum. Á sama tíma megi skynja blóma- og ávaxtabragð úr þeim eþíópísku. Jón segir að ef vel gangi á Íslandi sjái hann fyrir sér að hanna kaffi fyrir önnur lönd með sama hætti og fara í útrás með starfsemina. Hann segir eitt helsta markmið sitt vera að sýna fram á hvers megnug gervigreindin sé enda komi hún til með að breyta heiminum til frambúðar.

Jón Eggert Guðmundsson.
Jón Eggert Guðmundsson. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég kafa ofan í alla gagnagrunna um kaffi og kaffihegðun síðustu ára og áratuga og finn þannig út hvaða kaffibaunir Íslendingar vilja helst,“ segir Jón og bætir því við að hann sé mikill kaffikarl sjálfur.

Gervigreindarkaffið falli þó ekki að smekk hans sjálfs.

„Ég bjó lengi í Bandaríkjunum og þeir eru mikið með dökkristað kaffi sem mér líkar mjög vel. Íslendingar eru almennt meira fyrir léttristað og millibrennt.“

Hyggur einnig á bjórgerð

Jón hyggst ekki láta hér við sitja heldur hefur einnig áætlanir um bjórgerð, með sömu aðferðafræði. Sú framleiðsla er þó skemmra á veg komin en kaffið.

„Ég er kominn með uppskriftina en ég hef ekkert vit á bjór. Ég þarf að leita liðsinnis handverksbrugghúsa.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í gær. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK