Kortavelta ferðamanna dregst mikið saman

mbl.is/Hari

Mikill samdráttur varð í kortaveltu ferðamanna hér á landi í apríl, bæði í samanburði við apríl mánuð í fyrra, en líka í samanburði við marsmánuð, en alla jafna eykst kortavelta ferðamanna þegar nær dregur sumri og ferðamönnum fjölgar.

Í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar á Veltunni má sjá að erlend kortavelta nam 16,75 milljörðum króna í apríl og dróst hún saman um 23,6% milli ára.

Í mars nam erlend kortavelta hér á landi 22,7 milljörðum og er samdrátturinn milli mánaða 26,2%. Til samanburðar jókst veltan í mars um 1,9% miðað við mars árið áður.

Því er ljóst að um mikinn samdrátt er að ræða, hvort sem litið er í samanburði við síðasta ár eða mánuðinn á undan.

Magnús Sigurbjörnsson forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV).
Magnús Sigurbjörnsson forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV).

Innkoma erlendra færsluhirða hefur einhver áhrif

Rannsóknarsetur verslunarinnar tekur saman tölur um kortaveltu frá Rapyd, Teya og Netgíró, en Magnús Sigurbjörnsson, forstöðumaður rannsóknarsetursins, segir í samtali við mbl.is að vitað sé að fleiri erlendir færsluhirðar séu að koma inn á markaðinn hér á landi og taka til sín viðskipti. Skýrir það að einhverju leyti þennan mun, en þó bara að hluta að sögn Magnúsar. Segir hann enn mikinn meirihluta af kortaveltu hér á landi vera hjá fyrrnefndum fyrirtækjum þremur. Hann segir í vinnslu að fá tölur frá þessum erlendu færsluhirðum.

Magnús segir að samkvæmt samtölum sem hann hafi átt séu það helst ferðaþjónustufyrirtæki sem hafi fært sig yfir til erlendu færsluhirðana. Segir hann að það sjáist samdráttur hjá öllum færsluhirðum í erlendri kortaveltu á milli mánaða og svo virðist vera sem kortavelta ferðamanna sé að dragast saman.

Þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna hafi aðeins dregist saman um …
Þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna hafi aðeins dregist saman um 3,5% í apríl dróst kortavelta þeirra saman um 15-23%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raunsamdrátturinn gæti verið nær 15%

Spurður um áhrifin af þessari færslu til erlendra færsluhirða milli ára segir Magnús að hann sé ekki með nákvæmar tölur um það, en að sér þyki líklegt að rétt tala yfir samdrátt gæti verið nær 15% miðað við það sem hann hafi séð. Segir hann rannsóknarsetrið hafa heyrt í ferðaþjónustuaðilum fyrir birtingu talnanna og þar hafi komið fram að velta í apríl hefði verið minni en á sama tíma í fyrra og þá hafi þeir einnig fengið upplýsingar frá Seðlabankanum sem staðfesti það.

Fyrir helgi birtust tölur frá Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna í apríl, en þeir voru 3,5% færri en í apríl í fyrra. Rétt er þó að hafa í huga að páskarnir lentu að stærstum hluta í mars í ár sem getur haft einhver áhrif.

Innlend kortavelta eykst lítillega

Innlend kortavelta í apríl hækkaði þó í apríl um 0,12% milli ára og nam 81,8 milljörðum. Þar af jókst netverslun Íslendinga um 17,4% milli ára og var 15,03 milljarðar. Kortavelta í þjónustu nam 37,4 milljörðum króna í mánuðinum og eykst um 0,8% á milli ára. Kortavelta í verslunum nam 44,4 milljörðum króna í apríl og dróst saman um 0,5% á milli ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK